„Ætlum okkur ekki að vera miðlungslið“

Guðni Eiríksson, þjálfari FH.
Guðni Eiríksson, þjálfari FH. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Guðni Eiríksson þjálfari FH er nokkuð sáttur með niðurstöðu FH á þessu tímabili. FH endar í 6. Sæti á sínu öðru ári í Bestu deild kvenna. Spurður að því hvort þessi niðurstaða væri undir hans væntingum í sumar sagði hann þetta.

„Þetta er á pari við okkar væntingar. Þetta er bara í takt við það sem lagt var upp með fyrir þetta mót. Það var að festa okkur í sessi í þessari deild. Við vorum nýliðar í deildinni í fyrra og í ár var komið markmiðið að festa okkur í sessi til að geta tekið næsta skref fram á við á næsta tímabili.“

Það er oft talað um að ár tvö í efstu deild sé erfiðasta árið fyrir lið til að halda sér uppi. Það tókst samt hjá FH. Hver eru þá næstu skref hjá liðinu?

„Já ég er sammála því og ég er alveg heiðarlegur þegar ég segi að niðurstaðan í ár er betri en í fyrra útaf nokkrum þáttum. Einn af þeim er sá að það er erftitt að festa sig í sessi í deildinni eins og þú segir. Síðan erum við að ná þessum árangri á enn yngra liði en við gerðum í fyrra og það er frábært. En við ætlum okkur ekki að vera miðlungslið sem endar alltaf í 5-6 sæti. Þetta er tröppugangur og nú er það næsta trappa.“

Þú talar eins og þú sért byrjaður að hugsa um næsta tímabil. Það hlítur þá að þýða að þú verðir áfram með FH á næsta tímabili?

„Ég hugsa alltaf næstu skref, það er bara þannig. Það er hinsvegar svo að ég er með lausan samning. Það er undir stjórn FH komið hvað þeir vilja gera. Þó ég vilji að sjálfsögðu horfa fram á veginn með þetta lið en það eru fleiri en ég sem ákveða það.“

Voru úrslitin í dag sanngjörn að þínu mati?

„Já þetta voru sanngjörn úrslit, sérstaklega í ljósi þess hvernig við spiluðum í fyrri hálfleik þar sem við gerðum klaufaleg mistök sem gaf Þrótti tvö mörk. Við gerðum samt breytingar í seinni hálfleik og mættum mun ferskari til leiks en náðum samt ekki að skapa okkur nægilega hættuleg færi þannig að markvörðurinn þeirra átti bara náðugan dag. Svo kom þriðja markið þeirra og drap þetta.“

Aldís Guðlaugsdóttir varði margoft stórkostlega í dag. Færi sem er í raun ekki hægt að krefja markverði um að verja. Verður hún áfram í liði FH á næsta tímabili?

"Já það er rétt hjá þér hún átti frábæran dag og varði mjög vel. Hún verður áfram og mun koma enn betri á næsta tímabilli því hún er búin að vinna mjög mikið í sínum veikleikum sem og styrkleikum. Ég get lofað því að hún verður enn öflugri á næsta ári," sagði Guðni í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert