Ég trúi þessu ekki alveg

Telma Ívarsdóttir fagnar vel í leikslok.
Telma Ívarsdóttir fagnar vel í leikslok. Ólafur Árdal

„Ég veit ekki alveg hvernig mér líður. Ég trúi þessu ekki alveg í augnablikinu, það er svo stutt síðan hann flautaði af,“ sagði Telma Ívardóttir markvörður Breiðabliks í samtali við mbl.is eftir að liðið varð Íslandsmeistari í fótbolta.

Valskonur reyndu hvað þær gátu til að skora undir lokin, mark sem hefði þýtt að Valur hefði orðið meistari og Blikar setið eftir með sárt ennið.

„Mér leið ekkert sérlega vel í lokin. Það er mikið í húfi og staðan jöfn. Það hefði verið búið hjá okkur ef þær hefðu sett eitt mark. Við náðum að standa varnarleikinn vel í dag og kláruðum þetta.

Við vissum að við þurftum að verjast vel í þessum leik og við gerðum það svo sannarlega, eins og við höfum gert allt tímabilið. Ég er ánægð með varnarleikinn og hve vel Nik og Edda hafa komið inn í þetta.“

Yfir 1.600 áhorfendur voru á vellinum í dag, sem er nýtt met í efstu deild kvenna í fótbolta.

„Þetta er búið að vera æðislegt tímabil og ég er gríðarlega ánægð með mætinguna í dag. Þetta er eins og tólfti maðurinn á vellinum. Ég er gríðarlega þakklát fyrir þessa mætingu,“ sagði Telma, sem ætlar að fagna vel í kvöld.

„Það er lokahóf í kvöld og þá verður fagnað almennilega. Það verður ekki gefið neitt eftir það,“ sagði Telma sigurreif. Hún hélt á gullhanskanum á meðan á viðtalinu stóð, en hann fékk hún fyrir að vera valin besti markvörður Íslandsmótsins. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka