„Ég hafði engar áhyggjur,“ sagði Nik Anthony Chamberlain þjálfari Breiðabliks eftir að hann gerði liðið að Íslandsmeisturum kvenna í fótbolta í dag. Breiðablik tryggði sér titilinn með markalausu jafntefli gegn Val í úrslitaleik í lokaumferð Bestu deildarinnar á Hlíðarenda í dag.
Valur sótti stíft undir lokin, en Breiðablik varðist mjög vel og komst í mark. „Okkur leið vel á bekknum. Við vörðumst vel allan tímann. Vörnin okkar hefur verið sú besta allt tímabilið og við sýndum það í lokin.“
Þjálfarinn fagnaði vel og innilega í leikslok, enda Íslandsmeistari í fyrsta skipti. Hann sagði titilinn verðskuldaðan.
„Það varð allt vitlaust. Ég hef ekki fagnað svona í mjög langan tíma, eða síðan ég var leikmaður. Við erum búin að vera besta liðið á tímabilinu. Við höfum skorað mest, fengið fæst mörk á okkur og unnið flesta leiki. Við eigum þennan titil skilið.“
Rúmlega 1.600 manns fylltu stúkuna á Hlíðarenda í kvöld. „Það er ótrúlegt að sjá mætinguna og stuðningsmenn beggja félaga eiga hrós skilið. Það er magnað að sjá þetta í stærsta leik kvennadeildarinnar í mjög langan tíma.“
Fanndís Friðriksdóttir fékk gott færi til að skora sigurmarkið í blálok uppbótartímans. „Ég var stressaður. En við fengum líka okkar færi og hefðum getað skorað,“ sagði sá enski.