Fengum einhverja ofurkrafta í lokin

Ásta fagnar vel og innilega með Mikaelu Nótt Pétursdóttir í …
Ásta fagnar vel og innilega með Mikaelu Nótt Pétursdóttir í leikslok. Ólafur Árdal

„Það var ótrúlega góð tilfinning að heyra lokaflautið og ég held ég hafi dottið út á tímabili,“ sagði Ásta Eir Árnadóttir fyrirliði Breiðabliks í samtali við mbl.is eftir að hún varð Íslandsmeistari í fótbolta.

Breiðablik tryggði sér meistaratitilinn með markalausu jafntefli við Val á Hlíðarenda í hreinum úrslitaleik í lokaumferð Bestu deildarinnar. Valur hefði orðið meistari með sigri og sótti stíft undir lokin. Blikar vörðust vel og komust í mark.

„Mér leið vel. Við fengum einhverja ofurkrafta í lokin. Þær lágu á okkur og bættu í sóknina en mér fannst við loka vel og Telma var frábær í lokin og greip vel inn í,“ sagði Ásta.

Ásta Eir fagnar Íslandsmeistaratitlinum vel og innilega með sigurverðlaunin.
Ásta Eir fagnar Íslandsmeistaratitlinum vel og innilega með sigurverðlaunin. Ólafur Árdal

Titilinn er sá fyrsti hjá Breiðabliki frá árinu 2020 og því afar kærkominn fyrir sigursælasta lið Íslandssögunnar.

„Það eru komin nokkur ár síðan við unnum titil í Kópavogi. Það var komið að okkur, þetta er okkar ár og mér finnst við eiga þetta fyllilega skilið.“

Rúmlega 1.600 manns mættu á Hlíðarenda í kvöld og slógu gamla áhorfenda metið um 400 manns.

„Ég er þvílíkt sátt og stuðningsmenn Blika og Valsara eiga skilið hrós. Þetta hefði ekki getað endað betur. Það var allt með okkur í dag, veðrið, stuðningsmennirnir og titilinn.

Þetta var ólýsanlegt og ég er búin að hugsa um þetta augnablik lengi. Þetta er tilfinning sem ég gleymi seint,“ sagði Ásta Eir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert