Gamla ljósmyndin: Rugluðust þeir á búningsklefa?

Íþrótta­deild Morg­un­blaðsins og mbl.is held­ur áfram að gramsa í mynda­safni Morg­un­blaðsins og birta á mbl.is á laug­ar­dög­um. 

Heimir Karlsson og Lárus Guðmundsson eru með þekktustu leikmanna í knattspyrnusögu Víkings en á meðfylgjandi mynd úr myndasafni Morgunblaðsins má sjá þá leggjast saman á árarnar gegn Víkingi.

Einhver gæti haldið að þeir hafi ruglast á búningsklefa í þetta skiptið en staðreyndin er sú að þeir léku saman hjá Val sumarið 1989. 

Gengu þeir báðir til liðs við Val fyrir keppnistímabilið 1989. Myndin er tekin á Hlíðarenda af Rax eða Ragnari Axelssyni sem myndaði fyrir Morgunblaðið og mbl.is í áratugi. Valur tók þá á móti Víkingi í 16-liða úrslitum bikarkeppninnar. Á myndinni eru Heimir og Lárus hjá Val en einnig Víkingarnir Gunnar Gylfason og Trausti Ómarsson. Valur hafði betur 2:1 eftir framlengdan leik og skoraði Lárus gegn uppeldisfélaginu þegar hann jafnaði 1:1.

Heimir skoraði einnig gegn Víkingi þetta sumar og var það eina markið í leik liðanna á Hlíðarenda í 4. umferð Íslandsmótsins. Heimir skoraði þá sitt fyrsta mark í efstu deild í nokkur ár eftir að hafa verið spilandi þjálfari hjá ÍR og Víði í Garði í neðri deildum. 

„Heimir Karlsson sýndi í gærkvöldi að hann hefur litlu gleymt eftir nokkurra ára fjarveru úr 1. deildinni, þrátt fyrir að virka heldur þyngri en áður. Hann var síógnandi að marki síns gamla félags, og það var viðeigandi að hann skyldi einmitt skora sigurmarkið. Glæsilegt mark með skalla tryggði Val stigin þrjú gegn Víkingi,“ skrifaði Skapti Hallgrímsson meðal annars í umfjöllun Morgunblaðsins um leikinn 9. júní 1989. 

Heimir var lykilmaður í öflugu Íslandsmeistaraliði Víkings 1981 og 1982 en hann varð bæði Íslandsmeistari með liðinu í knattspyrnu og handknattleik. Rétt er að geta þess að Heimir hefur sagt í viðtölum að í honum sé einnig Valstaug og varð hann Íslandsmeistari með Val 1985.

Heimir átti lengi markamet Víkings í efstu deild í fótbolta, 37 mörk, en Nikolaj Hansen sló það á síðasta ári og Heimir er nú næstmarkahæstur á eftir honum í sögu félagsins í deildinni.

Lárus var einnig Íslandsmeistari með Víkingi 1981 en þá gat atvinnumennskan ekki beðið mikið lengur. Átti hann eftir að verða bikarmeistari í tveimur löndum. Með Waterschei í Belgíu og Bayer Uerdingen í Þýskalandi.

Skoraði hann bæði mörkin í bikarúrslitaleiknum í Belgíu árið 1982 þegar Waterschei vann Waregem 2:0. Uerdingen lagði Bayern München að velli 2:1 í bikarúrslitaleiknum í V-Þýskalandi árið 1985 og var Lárus í byrjunarliðinu. Waterschei þekkja líklega fáir í dag en félagið sameinaðist Winterslag árið 1988 undir betur þekktu nafni, Genk.

Lárus var á meðal tíu efstu í kjöri Samtaka íþróttafréttamanna á íþróttamanni ársins árið 1982. 

Lárus lék 17 A-landsleiki og skoraði 3 mörk. Heimir lék 3 A-landsleiki og skoraði 1 mark. 

Valur og Víkingur áttust við á Hlíðarenda í liðinni viku í efri hluta Bestu deildar karla og hafði Víkingur betur 3:2 eftir mikla spennu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka