Geðveikt að fá þessa viðurkenningu

Hrafnhildur Ása Halldórsdóttir var valin efnilegust. Þorvaldur Örlyggson formaður KSÍ …
Hrafnhildur Ása Halldórsdóttir var valin efnilegust. Þorvaldur Örlyggson formaður KSÍ afhendir henni verðlaunagripinn. Ólafur Árdal

Hin 17 ára gamla Hrafnhildur Ása Halldórsdóttir átti afar góðan dag. Hún varð Íslandsmeistari með Breiðabliki, ásamt því að vera valin efnilegasti leikmaður Bestu deildarinnar. Hún var því í góðu skapi er hún ræddi við mbl.is.

„Mér líður ótrúlega vel. Þetta er búið að vera langþráð því ég er búin að tapa einhverjum þremur úrslitaleikjum með Breiðabliki, svo þetta er sérstaklega sætt núna,“ sagði hún.

Hrafnhildur kom inn á sem varamaður á 77. mínútu gegn Val í hreinum úrslitaleik um Íslandsmeistaratitilinn. Lokatölur urðu 0:0, en Valur hefði orðið meistari með sigri. Valsliðið pressaði því stíft undir lokin.

„Þetta var mjög stressandi undir lokin og þær sóttu vel á okkur. Þær fengu einhverjar sex hornspyrnur en nýttu enga af þeim, sem er geggjað. Maður var bara að bíða eftir að þetta væri búið,“ sagði hún kát.

Rúmlega 1.600 manns fylltu stúkuna á Hlíðarenda í kvöld og slógu í leiðinni áhorfendametið í efstu deild kvenna. „Það er geðveikt að sjá stúkuna troðfulla og það gefur okkur rosalega mikið. Það hjálpaði okkur mjög mikið í dag.“

En hvernig var að vera valin efnilegust á sjálfu Íslandsmótinu?

„Það er geðveikt að fá þessa viðurkenningu. Ég var ekki endilega að búast við henni.“

Hrafnhildur lék fyrstu ellefu leiki sína í efstu deild á síðustu leiktíð. Hún fékk svo stórt hlutverk á tímabilinu í ár og nýtti það vel. En átti hún von á svo stóru hlutverki?

„Já og nei. Ég vissi að ef ég myndi standa mig fengi ég tækifærið og mér finnst ég hafa gert það.“

Hún sagði það sérstaklega sætt að vinna titilinn í úrslitaleik á heimavelli helstu mótherjanna. „Það var ekki nægilega mikil spenna í fyrra, því Valur kláraði þetta snemma þá. Markmiðið með skiptingunni er akkúrat að fá svona leiki,“ sagði sú efnilegasta.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka