FH og Þróttur áttust við í hreinum úrslitaleik um 5. sæti Bestu deildar kvenna í fótbolta í dag og lauk leiknum með sigri Þróttar 3:0 og endar liðið í 5 sæti deildarinnar á meðan FH konur þurfa að stætta sig við 6. sætið og það neðsta í efri hluta deildarinnar. Leikið var á Kaplakrikavelli í dag.
Leikurinn fór rólega af stað en það var Melissa Garcia sem átti fyrsta skot leiksins í dag. Skotið var vel varið af Aldísi Guðlaugsdóttur sem varði stórkostlega í fyrri hálfleik og má þakka henni fyrir að munurinn í hálfleik var ekki meiri en raun ber vitni.
Á 10 mínútu leiksins hefðu FH konur getað brotið ísinn þegar Hildigunnur Ýr Benediktsdóttir komst í fínt færi inni í teig Þróttar en skot hennar rétt yfir markið.
Stuttu síðar komst Snædís María Jörundsdóttir ein inn fyrir vörn gestanna en skot hennar varið af Mollee Swift markverði Þróttar.
Á 18 mínútu leiksins meiddist Jónína Linnet að því er virtist frekar illa og þurfti að bera hana af velli. Inn á fyrir hana kom Birna Kristín Björnsdóttir.
Á 25 mínútu leiksins komst Freyja Karín Þorvarðardóttir í sannkallað dauðafæri þegar hún slapp ein í gegnum vörn FH en Aldís varði stórkostlega frá henni.
Aldís var ekki hætt að bjarga FH liðinu því á 28 mínútu varði hún skalla frá Leu Björt Kristjánsdóttur stórkostlega.
Fyrsta mark leiksins kom á 30 mínútu leiksins þegar Caroline Murray átti skot utan teigs hjá Þrótti sem Aldís virtist alveg vera með í sigtinu en skyndilega breytti boltinn um stefnu og endaði í markinu. Staðan 1:0 fyrir gestina í Þrótti.
Þróttarakonur voru ekki hættar. Á 36 mínútu leiksins komst Sæunn Björnsdóttir ein inn fyrir vörn FH eftir misheppnaða sendingu FH kvenna og skoraði framhjá Aldísi í markinu og staðan orðin 2:0 fyrir Þrótt.
Þóttarakonur sóttu meira það sem eftir lifði fyrri hálfleiks en tókst ekki að bæta við þriðja markinu og staðan í hálfleik 2:0 fyrir Þrótt.
FH konur mættu grimmar til leiks í seinni hálfleik og sóttu meira framan af. Strax á 48 mínútu leiksins komst Valgerður Ósk Valsdóttir í fínt færi en skot hennar fór yfir markið. FH konur héldu áfram að sækja en náðu ekki að skapa sér markverð tækifæri til að minnka muninn.
Á 60 mínútu leiksins átti Jelena Tinna Kujundzic frábært skot að marki FH fyrir utan teig en Aldís Guðlaugsdóttir kom enn og aftur með stórkostlega markvörslu fyrir FH og bjargaði í horn.
Á 62 mínútu juku gestirnir forystuna þegar Melissa Garcia skoraði þriðja mark Þróttar eftir að Aldís hafði varið boltann í þverslá. Staðan 3:0 fyrir Þróttarakonur sem voru með þessu að gulltryggja sér 5. sætið í deildinni.
Eftir þetta fóru liðin að gera skiptingar og við það breyttist leikurinn talsvert. FH sótti þó ívið meira en náði ekki að skapa sér nægilega hættuleg færi.
Fór svo að leikurinn endaði með 3:0 sigri Þróttara.