„Þessi leikur leggst ótrúlega vel í okkur. Við erum gríðarlega spennt, öll Valsfjölskyldan, að fá að takast á við svona stóran leik,“ sagði Elísa Viðarsdóttir, fyrirliði Vals, fyrir hreinan úrslitaleik liðsins gegn Breiðabliki um Íslandsmeistaratitilinn í dag.
Þetta er í raun og veru það sem við æfum fyrir alla daga, að fá að spila svona stóra leiki sem skipta okkur svo rosalega miklu máli,“ sagði Elísa í samtali við mbl.is á kynningarfundi fyrir leikinn að Hlíðarenda á fimmtudag.
Undanfarin ár hefur Valur verið búinn að tryggja sér Íslandsmeistaratitilinn áður en í lokaumferðina er komið. Að þessu sinni þarf Valur hins vegar á sigri að halda í síðustu umferðinni til þess að vinna titilinn.
„Við leggjum þennan leik upp eins og alla aðra leiki. Við förum alltaf í alla leiki til þess að vinna og það er bara það sama með þennan. Við göngum bara í þennan leik til að vinna.
Við ætlum ekki að vera á hælunum, við ætlum að vera á tánum og sækja þessi þrjú stig sem við þurfum til þess að tryggja okkur skjöldinn,“ sagði hún.
Bætti Elísa því við að upplifunin af því að vera að elta á þessum tímapunkti væri vissulega öðruvísi.
„Ég held að þetta sé öðruvísi áskorun fyrir liðið og kannski eitt af þeim skrefum sem liðið þarf að taka til þess að verða enn betra á næstu árum. Að prófa að takast á við keppnina á þennan hátt.
Ég vona að allir reyni að læra sem mest af þessu og stígi inn í þetta óhræddar og hugrakkar. Þori að mæta í þennan leik á okkar heimavelli til þess að vinna.“
Mikil dagskrá verður í kringum leikinn og binda skipuleggjendur hjá Bestu deildinni vonir við að áhorfendamet verði slegið í efstu deild. Metið er 1.212 áhorfendur, sem mættu á leik Þórs/KA og Selfoss árið 2012.
Aðspurð sagði hún Valskonur ekki hugsa mikið um þann möguleika:
„Nei, við einbeitum okkur sem minnst að því og leyfum öðrum að hugsa um það að fylla stúkuna. En það sem við getum lagt inn er að spila góðan fótbolta, búa til góða skemmtun fyrir áhorfendurna. Við ætlum að eyða tímanum sem við höfum til þess að safna orku, til þess að geta eytt henni á laugardaginn.“
Elísa byrjaði síðasta leik Vals og nálgast óðum sitt besta form eftir barnsburð fyrr á árinu.
„Standið er að verða mjög gott. Auðvitað eru sjö mánuðir síðan ég eignaðist barn og maður er kannski ekki kominn á sitt besta ról en ég tel mitt næstbesta vera nærri góðu lagi þó ég vilji að sjálfsögðu ná mínu besta fram.
Það kemur bara á næstu mánuðum. Mér líður vel og ég veit að ég get gefið liðinu ótrúlega mikið, bæði innan sem utan vallar. Ég ætla að gera allt sem ég get til þess að öllum líði sem best og eigi sinn besta dag,“ sagði hún að lokum.