Vestri steig stórt skref að áframhaldandi sæti í Bestu deild karla með því að sigra Framara í Úlfarsárdal, 4:2, í 25. umferð deildarinnar í dag.
Vestri er þá kominn með 25 stig í 10. sætinu, jafnmörg og KR, en HK er með 21 stig og Fylkir 17 í tveimur neðstu sætunum og mætast á morgun. Fram er öruggt áfram í deildinni með 30 stig.
Lítið var um að vera lengi vel, bæði lið að fóta sig á vellinum og reyna upphugsa leiðir að marki mótherja án þess þó að opna sína vörn.
Vestramenn náðu tvisvar að koma boltanum að marki Fram en í bæði skiptin var engin hætta á ferð og Ólafur Íshólm Ólafsson hirti boltann auðveldlega.
Fyrsta góða færi leiksins kom á 20. mínútu þegar Framarinn Fred Saraiva komst upp vinstra megin inn í vítateig Vestra, gaf síðan boltann út við hægri stöngina þar sem Tryggvi Snær Geirsson skallaði laust af stuttu færi en Alex Freyr Elísson kom aðvífandi og ýtti við boltanum en William Eskelinen markmaður Vestra var mættur til að hirða boltann.
Aðeins mínútu síðar, á þeirri 21., kom fyrsta markið þegar Benedikt Warén sá glufu í vörn Fram á miðjum vellinum og sendi boltann upp völlinn. Markahrellirinn Andri Rúnar Bjarnason tók á sprett með varnarmann Fram á eftir sér en náði að koma boltanum rétt inn í vítateig og skjóta yfir Ólaf Íshólm markmann. Staðan 0:1 fyrir Vestra.
Fram fékk annað tækifæri á 30. mínútu þegar Tryggvi Snær rétt kominn inn í vítateig, fékk boltann út á móti sér og þrumaði að marki en William markmaður náði að komast fyrir skotið og varnarmenn Vestra hreinsuðu svo frá. Hörkuskot en beint á markmanninn, sem hefði tæplega varið ef ekki beint á hann.
Svo jafnaði Fram í 1:1 á 34. mínútu. Fred var úti á vinstri kanti og allt frekar rólegt en sendi þá hnitmiðað sendingu inn að hægra markteigshorninu þar sem Alex Freyr stökk fram og skoraði. Virtist ekki mikil hætta á ferð en þetta var snöggt og eiginlega óvænt.
Engu líkara en Framarar væru komnir með hugann við hálfleikshlé því þeir fengu tvö mörk eins og blauta tusku í andlitið.
Á 44. mínútu fékk Benedikt Warén úr Vestra sendingu í gegn vörn Fram upp vinstri kantinn, hann rakti boltann áfram og varnarmaður Fram hreinlega náði honum ekki. Rétt kominn í vítateig vinstra megin skaut Benedikt yfirvegað í hægra hornið. Staðan orðin 1:2 fyrir Vestra.
Mínútu síðar þegar komið var inn í uppbótartíma fékk Andri Rúnar sendingu í gegnum vörn Fram en náði boltanum alveg við endalínu um 10 metra frá markinu. Kappinn gerði sér þá lítið fyrir, færði boltann aðeins frá endalínunni og skaut yfir markmann Fram. Ótrúlega flott afgreiðsla og staðan 1:3 fyrir Vestra.
Á 54. minútu síðari hálfleiks léku félagarnir Benedikt og Andri vörn Fram aftur grátt. Þá komst Benedikt upp hægri kantinn og gaf inn í vítateig Fram þar sem Andri Rúnar var einn með varnarmann Fram rétt hjá sér en náði samt að skjóta undir Ólaf Íshólm í markinu. Staðan 1:4.
Fram tók þá við sér og settu aukinn þunga í sóknarleik sinn.
Á 57. mínútu lék Guðmundur Magnússon fyrirliði Fram á vörn Vestra við markteigslinuna og náði skoti framhjá William í markinu en Eiður Aron Sigurbjörnsson varði glæsilega á línu.
Tveimur mínútum síðar var Markús Páll Ellertsson með boltann við vítateigslínu þaðan sem hann þrumaði í slánna hjá Vestra.
Svo kom að því að pressa Fram skilaði marki. Fram fékk aukaspyrnu rétt utan við miðja vítateigslínu á 67. mínútu og Kennie Chopart þrumaði óverjandi upp í vinstra hornið til að minnka muninn í 2:4.
Tveimur mínútum síðar átti Þorri Stefán Þorbjörnsson varnarmaður Fram þrumuskot á vítateigslínunni en William náði með tilþrifum að slá boltann yfir.
Þegar hér var komið var Fram komið með öll völd á vellinum og sótti stíft án þess að fá sóknir í bakið.
Á 73. mínútu syrti enn í álinn hjá Vestra þegar Ibrahima Baldé fékk beint rautt spjald þegar Fram var að fara taka aukaspyrnu og þó fáir hefðu komið auga á ástæðuna þá var Ívar Orri dómari alveg viss á sinni sök.
Á 78. mínútu átti Djenario Daniels skalla að marki Vestra að stuttu væri en boltinn beint í hendurnar á William markverði.
Næstu tveir leikir liðanna og þar með síðustu leikir mótsins eru næstu helgar en samt ekki um næstu helgi. Fram mætir næst HK í Kórnum sunnudaginn 20. október og síðan KA heima í Úlfarsárdalnum laugardaginn 26. október. Næsti leikur Vestra er gegn KA á Akureyri laugardaginn 19. október og síðan er lokaleikur gegn Fylki fyrir vestan laugardaginn 26. október.