Við linir og þeir stela af okkur boltanum

Rúnar Kristinsson þjálfari Fram.
Rúnar Kristinsson þjálfari Fram. mbl.is/Kristinn Steinn

„Við fáum öll mörk Vestra í skyndisóknum þegar við gefum frá okkur boltann eða þeir stela honum af okkur og hvernig sem við horfum á það þá er við linir og ekki nógu einbeittir í þessum tilvikum,“ sagði  Rúnar Kristinsson þjálfari Fram eftir 2:4 tap fyrir Vestra í Úlfarsárdalnum í dag þegar leikið var í neðri hluta efstu deildar karla í knattspyrnu.  Fram er enn með sín 30 stig og getur enn fengið 6 stig en þrjú lið geta náð þeim að stigum.

„Ég held að höfum átt um tuttugu fimm eða tíu metra sendingar sem klikka og það á ekki að vera hægt á sléttu og frábæru gervigrasi. Fyrir vikið gefum við þeim boltann trekk í trekk og ég held að Vestri hafi átt eina sendingu, sem dugði þeim til að skora mark.  Vestramenn vörðust vel, ekkert að þeirra leik, héldu boltanum vel í fyrri hálfleik og bjuggu til ágætis sóknir en við vorum ekki líkir okkur í að passa boltann eins og í mörgum leikjum okkar.  Menn ætluðu að reyna að rífa sig upp eftir ömurlegan leik í Vesturbænum og laga þessa hluti en einhverra hluta vegna áttum við margar misheppnaðar sendingar og fáum á okkur skyndisóknir.  Það er smá  værukærð í því og eitthvað hugarfar, sem ég er mjög ósáttur við.“

Fram tapaði illa fyrir KR í síðasta leik og Rúnar segir það hefði átt að duga til bæta upp í dag. „Við þurftum ekkert að hvetja okkur áfram í þessum leik, við þjálfarar og leikmenn vissum upp á okkur skömmina.  Það eru allir ósáttir við að niðurlægja okkur eins og í síðasta leik við KR og við ætluðum að laga það en þó menn hafi það í huga og ætli sér það þá þarf að fylgja því hlaup og barátta til að vinna.  Stundum, eins og í dag, þá voru menn alveg tilbúnir í að hlaupa fram á við og vera með boltann en þegar menn voru ekki með boltann voru menn aðeins hægari, aðeins að  spara að hlaupa til baka og fóru ekki í allar tæklingar.  Svo þegar menn hafa lítið að spila fyrir læðist það inn í hausinn á mönnum, sem ekki vænlegt til árangurs,“ bætti þjálfarinn við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert