Ánægð með að það hafi gerst á Íslandi

Samantha Smith, lengst til hægri, fagnar með liðsfélögum sínum í …
Samantha Smith, lengst til hægri, fagnar með liðsfélögum sínum í gær. Ólafur Árdal

„Þetta var léttir í lokin,“ sagði Samantha Smith, bandaríska sóknarkonan sem hefur slegið í gegn íslenska fótboltanum á tímabilinu, í samtali við mbl.is eftir að hún varð Íslandsmeistari með Breiðabliki í gær.

Breiðablik gerði þá markalaust jafntefli við Val í hreinum úrslitaleik um Íslandsmeistaratitilinn. Kópavogsliðinu nægði jafntefli, en Valur þurfti að vinna. Valsliðið reyndi því hvað það gat undir lokin en Breiðablik varðist vel.

„Ég vissi að jafntefli myndi duga okkur og við vildum halda út á lokakaflanum. Við vildum samt auðvitað skora líka og enda þetta á sigri en ég er ánægð með að sigla þessu í höfn í lokin.“

Ólafur Árdal

Það var nóg að gera í vörninni og eina sem ég hugsaði um þegar þær fengu horn var að koma boltanum eins langt frá og hægt var. Ég er virkilega ánægð með að það hafi tekist,“ sagði hún.

Algjör draumur

Tímabilið hjá Samönthu hefur verið draumi líkast. Hún raðaði inn mörkunum með Fjarðabyggð/Hetti/Leikni og hjálpaði liðinu að vinna 1. deildina. Hún gekk svo í raðir Breiðabliks fyrir lokakaflann og hélt áfram að skora grimmt. Hún vann því tvöfalt í ár, með tveimur mismunandi liðum og raðaði inn mörkum í leiðinni.

„Þetta er algjör draumur. Ég trúi varla að þetta hafi gerst. Ég er svo stolt af bæði FHL og Breiðabliki. Við lögðum mikið á okkur til að komast á þennan stað og ég er svo ánægð með þennan sigur,“ sagði hún. En vissi Samantha alltaf að hún gæti skorað í efstu deild?

„Nei, alls ekki. Ég var mjög stressuð að koma inn í þessa deild. Það hvarf svo þegar ég small inn í þetta lið. Ég reyndi bara að gera mitt og reyndi að skora eins mikið og ég gat. Liðsfélagarnir hjálpuðu mér við að skora,“ sagði hún.

Ólafur Árdal

Norðurljós með fjölskyldunni

Íslandsmeistaratitilinn er stærsta afrek þeirrar bandarísku á ferlinum. „Ég hef aldrei unnið neitt svona stórt áður og ég er ánægð með að fyrsti stóri sigurinn sé hérna á Íslandi. Þetta er ótrúlegt.

„Ég mun fagna með liðsfélögunum. Það er lokahóf í kvöld og við fögnum vel og sjáum til hvað gerist. Og já! Ég vil sjá norðurljósin,“ sagði hún. En hefur hún ekki séð þau áður?

„Ég hef séð þeim, en ég vil að fjölskyldan mín sjái þau líka. Þau komu sérstaklega fyrir þennan leik. Þau mættu líka á einn leik fyrir austan og vildu líka sjá einn leik með Breiðabliki. Þá var þessi leikur tilvalinn. Ég er rosalega ánægð með að þau gátu upplifað þetta með mér,“ sagði hún.

Ólafur Árdal

Rúmlega 1.600 manns mættu á leikinn í gær og var Samantha þakklát fyrir stuðninginn.

„Ég heyri venjulega ekki hvað er í gangi upp í stúku því ég er mjög einbeitt. En það var ómögulegt að heyra ekki í stuðningsmönnunum í dag. Það var mikil ástríða í stuðningsmönnunum í dag og ég elska þau öll,“ sagði sú bandaríska.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert