Annar stórsigur KR í röð

Luke Rae og Ívar Örn Árnason í baráttunni í dag.
Luke Rae og Ívar Örn Árnason í baráttunni í dag. Ljósmynd/Egill Bjarni Friðjónsson

KA og KR spiluðu í dag á KA-vellinum í neðri hluta Bestu-deildarinnar. KR vann auðveldan 4:0-sigur gegn áhugalitlum KA-mönnum. KR-ingar er nú allt í einu farnir að eygja 7. sætið en liðið er þremur stigum á eftir KA og tveimur stigum á eftir Fram.

Það var bara eitt lið sem byrjaði leikinn og það var KR. Heimamenn voru eins og nýkomnir af réttarballi og vissu ekkert hvaðan á sig stóð veðrið fyrr en staðan var orðin 2:0 fyrir KR.

Fyrra markið kom á 7. mínútu en þá brunaði miðvörðurinn Birgir Steinn Styrmisson með boltann í gegn um nokkra KA-menn. Hann ætlaði Benóný Breka boltann en fékk hann til baka og þrumaði að marki. Boltinn fór í bláhornið niðri og var þetta fyrsta mark Birgis Steins fyrir KR. Nokkru síðar ákvað Darko Bulatovic að gefa boltann á Luke Rae. Engendingurinn þakkaði pent og skoraði auðveldlega eftir þríhyrningaspil við Benóný Breka. Mörk KR-inga voru einstaklega ódýr en þau hefðu allt eins getað orðið fleiri áður en KA-menn loks gyrtu sig í brók.

Síðasta kortérið í fyrri hálfleik fór KA að bíta frá sér og færi litu ljós. Á lokamínútunni fékk KA víti þegar Viðar Örn Kjartansson var felldur af Alex Þór Haukssyni. Viðar Örn fór svellkaldur á vítapunktinn og tók laust skot undir slána á mitt markið. Guy Smit hreyfði sig ekki á línunni og bara greip boltann. KR fór því inn í hálfleikshléið með 2:0 forystu.

KA gerði þrefalda skiptingu í hálfleik og það var bara allt annað lið sem mætti til leiks. Heimamenn voru meira og minna í sókn en fá færi litu dagsins ljós.

Það var svo KR sem gerði endanlega út um leikinn þegar kortér lifði leiks. Eyþór Aron Wöhler skallaði í mark af stuttu færi eftir sendingu frá Luke. Benóný Breki þurfti svo að komast á blað og hann náði inn marki rétt fyrir leikslok. 4:0 urðu því lokatölurnar og KR er nánast öruggt með sæti sitt í deildinni.

Lýsing uppfærist sjálfkrafa

Allar lýsingar í beinni

KA 0:4 KR opna loka
90. mín. KA fær hornspyrnu
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert