Breiðablik og Valur skildu jöfn, 2:2, í 25. umferð af 27 í Bestu deild karla í fótbolta á Kópavogsvelli í kvöld. Breiðablik missti því af tækifæri til að fara í toppsætið, en liðið er með 56 stig, eins og Víkingur.
Valur er áfram í þriðja sæti, nú 40 stig, einu stigi á undan Stjörnunni og þremur á undan ÍA í baráttunni um þriðja sæti, sem er Evrópusæti.
Blikar voru mun sterkari framan af og fengu Kristinn Jónsson, Aron Bjarnason og Davíð Ingvarsson allir fín færi á fyrstu 18 mínútunum. Kristinn og Aron hittu ekki á markið úr góðum stöðum og Frederik Schram í marki Vals varði vel frá Davíð af stuttu færi.
Það var því gegn gangi leiksins þegar Tryggvi Hrafn Haraldsson kom Val yfir á 21. mínútu. Hann nýtti sér þá röð mistaka í vörn Breiðabliks, slapp í gegn og kláraði af stakri snilld framhjá Anton Ara Einarsson í marki Breiðabliks.
Markið var högg fyrir Blikaliðið, sem náði ekki sömu hæðum í sitt spil það sem eftir lifði fyrri hálfleiks. Arnór Gauti Jónsson og Höskuldur Gunnlaugsson reyndu báðir skot utan teigs en hittu ekki markið.
Hinum megin var Tryggvi nálægt því að endurtaka leikinn á 39. mínútu er hann nýtti sér aftur mistök í vörn Blika og slapp í gegn. Hann lék á Anton Ara í markinu en missti jafnvægið áður en hann náði skoti á markið. Voru hálfleikstölur því 1:0, Val í vil.
Breiðablik sótti stíft í byrjun seinni hálfleiks og það skilaði jöfnunarmarki á 56. mínútu. Davíð Ingvarsson átti þá lúmskt skot í teignum og boltinn fór í gegnum nokkra varnarmenn og framhjá Frederik Schram sem sá boltann seint.
Sókn Breiðabliks róaðist eftir markið og Valsmenn komust betur inn í leikinn. Það voru svo gestirnir sem skoruðu næsta mark á 67. mínútu er Patrick Pedersen skallaði í netið af stuttu færi eftir fyrirgjöf frá Tryggva Hrafni.
Breiðablik svaraði því höggi vel og staðan var aftur jöfn á 77. mínútu þegar Davíð skoraði sitt annað mark. Hann negldi þá boltanum þá stórglæsilega upp í skeytin nær utan teigs eftir þunga sókn.
Blikar náðu hins vegar ekki að skapa sér gott marktækifæri eftir það á meðan Valsmenn voru sáttir við eitt stig. Varð jafntefli því niðurstaðan á Kópavogsvelli í kvöld.