Breiðabliksliðið er heitara en við í dag

Kristinn, til vinstri, í baráttunni í kvöld.
Kristinn, til vinstri, í baráttunni í kvöld. Ólafur Árdal

„Við erum ekki sáttir. Við komumst tvisvar yfir í leiknum en Breiðabliksliðið er heitara en við í dag og það er ekki slæmt að koma hingað og fá eitt stig,“ sagði Kristinn Freyr Sigurðsson leikmaður Vals í samtali við mbl.is í kvöld.

Kristinn og samherjar hans gerðu jafntefli við Breiðablik, 2:2, á Kópavogsvelli í 25. umferð af 27 í Bestu deildinni í fótbolta í kvöld. Breiðabliki mistókst að fara upp í toppsætið á meðan Valur er enn í þriðja sæti og í mikilli baráttu um Evrópusæti.

„Það vantaði að sigla þessu heim. Við hefðum getað haldið boltanum betur og verjast þeirra sóknum betur. Við erum að reyna að kreista fram sigur gegn góðum liðum þessa dagana. Það er erfitt en vonandi gengur það upp hjá okkur í næsta leik,“ sagði Kristinn.

Fjölmarga lykilmenn vantaði í Valsliðið í kvöld og því ekki slæmt að fara með eitt stig heim af einum erfiðasta útivelli landsins. „Þetta hefur verið erfitt en þeir sem hafa komið inn hafa staðið sig vel. Við hefðum viljað vera með fleiri stig. Þeir sem eru að spila eiga hrós skilið.“

Valur er nú með einu stigi meira en Stjarnan og hörð barátta um þriðja sætið, sem gefur þátttökurétt í Sambandsdeildinni, fram undan.

„Það eru tveir leikir eftir og skemmtileg barátta fram undan. Við ætlum að taka þetta þriðja sæti,“ sagði Kristinn. Valur hefur unnið fáa leiki undanfarnar vikur og mánuði og Kristinn viðurkenndi að það væri erfitt.

„Auðvitað er Valur félag sem er vant því að vinna leiki. Það er erfitt þegar það gengur ekki. Við strákarnir erum samt góðir félagar inni í klefa. Liðsheildin er að batna og það sést á vellinum. Nú höldum við áfram og klárum þriðja sæti,“ sagði Kristinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert