Ekki nema þú sért Man City með einkaflugvél

Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkings, á hliðarlínunni í dag.
Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkings, á hliðarlínunni í dag. mbl.is/Ólafur Árdal

Arnar Bergmann Gunnlaugsson þjálfari Víkinga var stoltur af liði sínu sem gerði 2:2-jafntefli við Stjörnuna í efri hluta Bestu deildar karla í knattspyrnu á á Víkingsvelli í kvöld.

Víkingum tókst að jafna leikinn í uppbótartíma. Víkingar heyja harða baráttu við Breiðablik um Íslandsmeistaratitilinn en allt stefnir í hreinan úrslitaleik milli liðanna í lokaleik deildarinnar. Við ræddum við Arnar strax eftir leik.

Er Breiðablik með þetta í sínum höndum?

„Nei, alls ekki. Við þurfum bara að vinna Skagann í næstu umferð og þá fáum við úrslitaleik hérna heima og ef við vinnum síðan Blikana þá verðum við Íslandsmeistarar.

Ef við fáum úrslitaleik hérna þá er það bara geggjað. Fyrst og fremst er þetta frábært stig og þvílíkur karakter og ég gæti ekki verið ánægðari með strákana,“ sagði hann.

Ertu sammála þegar ég segi að það sáust þreytumerki á Víkingum?

„Já það má segja það. Þú ferð oft í tæknifeila og rangar ákvarðanir þegar þreyta gerir vart við sig og það var þannig. Mér fannst við samt vera að keppa vel við Stjörnuna í dag. Við fengum færi og mér fannst okkar færi vera sterkari. Bæði þeirra mörk koma eftir að við erum í bullandi sókn og þeir eru með senter sem spilar enga vörn. Um leið og þeir vinna boltann þá negla þeir á hann og hann er gríðarlega öflugur. Þetta var heimsklassamark.

Það er erfitt að spila gegn liðum í nútíma fótbolta sem eru með framherja sem hálfpartinn svindlar. Því þú sérð það ekkert í toppliðum að senter hangi bara frammi á meðan liðið er í sókn. Það var okkar að nýta það og missa ekki boltann á vondum stöðum. En þegar þeir skora þá fannst mér við vera líklegri,“ sagði Arnar.

Það virtist samt stefna í hrun í ykkar leik þegar Pálmi virðist meiðast og svo meiðist Oliver Ekroth en ykkur tókst samt að halda út leikinn.

„Já, eins og ég sagði þá er ótrúlegur karakter í liðinu að ná að koma til baka gegn sterku liði Stjörnunnar og þetta er frábært stig. Þetta er ennþá í okkar höndum og hefði verið það þrátt fyrir að við hefðum tapað þessum leik,“ sagði hann.

Víkingar koma til landsins eftir Evrópuleik aðfaranótt laugardags sem var í gær. Er það raunhæft að lið geti spilað af fullri getu án þess að sýna þreytumerki og jafnvel missa leikmenn í meiðsli eftir svona stutta endurheimt?

„Nei, að sjálfsögðu ekki en það var bara ekki hægt að færa leikinn til mánudags útaf landsleikjapásunni. Svona er þetta bara. Við vissum af þessu fyrir tímabilið og okkur dreymdi um að komast svona langt.

Það er samt þannig að um leið og þjálfarar og aðstandendur fara að ræða þetta þá er það flokkað sem væll. En ég held að knattspyrnuáhugamenn séu gáfuðustu stuðningsmenn í heimi. Ég held að þeir beri bara virðingu fyrir að við erum að mæta í þessa leiki og sýna kraft, karakter og ástríðu. Ég held það sé besta svarið við þessari spurningu,“ sagði Arnar.

Það sem ég er í raun að spyrja þig að er hvort það sé raunhæft með tilliti til mannlegrar getu að spila tvo risastóra fótboltaleiki, annan á Kýpur og hinn svo á Íslandi með svona stuttu millibili?

„Nei, ekki nema þú sért Man City með einkaflugvél, kæliklefa og 20 nuddara. Þá er það alveg hægt. Þetta er hægt en þú þarft að rótera gríðarlega miklu. Ég gerði fjórar breytingar strax eftir hálftíma í seinni hálfleik. Það sagði enginn að þetta væri auðvelt en við erum allavega komnir hingað.

Ekroth er örugglega frá í mánuð. Mín skoðun er að þú þarft bara að kýla á þetta og gefa þig allan í þetta og annað hvort kemur þetta eða ekki. Þetta eru forréttindi að vera í þessari stöðu og ég ætla ekki að væla yfir henni,“ sagði Arnar Gunnlaugsson að lokum í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert