Gerir eitthvað fyrir okkur en ekkert fyrir þá

Leifur Andri Leifsson fylgist með félaga sínum Ívari Erni Jónssyni …
Leifur Andri Leifsson fylgist með félaga sínum Ívari Erni Jónssyni í leiknum í dag. Ólafur Árdal

„Við verðum að ná í þau sex stig sem enn eru í boði til þess að eiga möguleika á að halda okkur í deildinni," sagði Leifur Andri Leifsson, fyrirliði HK, eftir jafntefli Kópavogsliðsins gegn Fylki, 2:2, í 25. umferð Bestu deildar karla í fótbolta síðdegis í dag.

Brynjar Snær Pálsson jafnaði þar fyrir HK á sjöundu mínútu í uppbótartíma, 2:2, og Fylkir féll þar með niður í 1. deild en HK er þremur stigum á eftir Vestra þegar tvær umferðir eru eftir og með mun verri markatölu. Ljóst er að liðið þarf minnst fjögur stig gegn Fram og KR til að geta haldið sér í deildinni.

„Já, það vissu allir að það væri allt undir í þessum leik og þetta stig gerir alla vega eitthvað fyrir okkur en ekki neitt fyrir þá. Við verðum að líta björtum augum á að hafa náð að jafna þarna í lokin en ég held að við höfum skapað okkur nógu mörg færi til að vinna þennan leik," sagði Leifur við mbl.is eftir leikinn.

„Við hleyptum þessu upp í alltof mikla vitleysu strax í byrjun seinni hálfleiks, þá var eins og það hefði slokknað á okkur eftir að við höfum náð forystunni í lok fyrri hálfleiks.

Það var eins og við værum hálf sofandi þegar seinni hálfleikurinn hófst, þvert á það sem við töluðum um, og það var helvítis högg að fá þessi tvö mörk á okkur.

En við sýnum alla vega smá karakter með því að ná að jafna leikinn og ef jöfnunarmarkið hefði komið aðeins fyrr held ég að sigurinn hefði í það minnsta fallið öðru hvoru megin," sagði Leifur.

Þetta var keimlíkt hjá ykkur og gegn Vestra, þið komust yfir en fenguð síðan á ykkur tvö mörk. Er einhver skýring á því?

„Já, það er bara eins og við höldum að þetta sé komið með því að ná forystunni. Það er eins og við þurfum spark í andlitið til að vakna aftur og það má segja að þetta sé helvíti þreytt.

Þeir skoruðu eftir bara tvær mínútur í seinni hálfleiknum og svoleiðis á ekki að vera í boði þegar þrír leikir eru eftir af mótinu og við í þessari stöðu í deildinni.

Við hefðum þurft að halda forystunni en við reyndum þó og reyndum og náðum að kreista inn þessu marki í lokin. Það gerir þó alla vega eitthvað fyrir okkur," sagði fyrirliðinn.

HK á eftir heimaleik gegn Fram og útileik gegn KR og þarf að ná í minnst fjögur stig og helst að vinna þá báða til að eiga möguleika á að halda sér í deildinni.

„Já, við verðum að ná í þessi sex stig, það er ekki um neitt annað að ræða. Þá er bara að setja upp hausinn og trúa á að við getum bjargað okkur. Þetta er ekki í okkar höndum en við verðum að halda í trúna og reyna að enda með eins mörg stig og við getum," sagði Leifur Andri Leifsson.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert