Jökull I. Elísabetarson var svekktur með 2:2-jafntefli Stjörnunnar gegn Víkingum í kvöld. Stjörnumenn voru með unninn leik þegar Óskar Örn Hauksson jafnaði metin í uppbótartíma.
Við spurðum Jökul út í leikinn í kvöld:
„Ég er mjög ósáttur við úrslitin því við ætluðum okkur meira og vorum með unninn leik þannig að ég held við allir í liðinu séum mjög svekktir.“
Þú segir að þið hafið verið með unninn leik. Hvað veldur því að Stjarnan klárar ekki leikinn með sigri?
„Óskar skorar með föstu skoti sem var erfitt að verjast í ljósi þess að hann hefur viðkomu í varnarmönnum en við áttum að koma í veg fyrir þetta áður en hann komst í þessa stöðu. En það er ekkert óeðlilegt að þeir skori tvö mörk. Þeir ógnuðu okkur og við þeim en úr því sem komið var þá er svekkjandi að hafa ekki unnið leikinn,“ sagði hann.
Víkingar særðust talsvert í seinni hálfleik. Fyrst meiðist Pálmi í markinu og svo tognar Ekroth aftan í læri og þarf skiptingu. Átti Stjarnan að nota þennan kafla betur í ljósi þess að það var uppnám í liði Víkinga á þessum tímapunkti?
„Auðvitað gátum við gert betur og fengum mjög góðar stöður. Við bara náðum ekki að finna manninn í teignum. Við hefðum getað gert betur í mörgu eins og er alltaf en ég er ánægður með liðið og þessi leikur var mikil skemmtun fyrir alla,“ sagði Jökull.
Hvernig metur þú framhaldið upp á Evrópusæti?
„Það er hörkuleikur á eftir hjá Breiðabliki og Val en síðan mætum við bara Breiðabliki í næstu umferð og ætlum okkur að sækja þrjú stig þar og höldum svo bara áfram,“ sagði hann.
Hvað hefði mátt fara betur hjá þínu liði í dag?
„Ég er heilt yfir mjög ánægður með liðið í dag. Það eina sem vantaði upp á var eitt móment í lokin. En höfum í huga að þetta var kaflaskipt hjá liðunum. Áður en við skorum voru þeir búnir að fá 2-3 góð færi en ná ekki að hitta boltann nálægt markinu.
Það eina sem svíður er bara að hafa ekki klárað þetta. En við höfðum ekki fulla stjórn á þessum leik frekar en Víkingar og þetta var bara skemmtilegur leikur tveggja toppliða,“ sagði Jökull að lokum í samtali við mbl.is.