„Það er eins svekkjandi og það verður að falla með liðinu sínu en þetta gerðist ekki í dag, þetta nær yfir heilt tímabil," sagði Ragnar Bragi Sveinsson fyrirliði Fylkis eftir jafnteflið gegn HK, 2:2, í Bestu deild karla í fótbolta í Kórnum í dag.
HK jafnaði á sjöundu mínútu uppbótartímans og þar með voru Fylkismenn fallnir en þeir hefðu enn eygt von fyrir tvær síðustu umferðirnar ef þeir hefðu unnið leikinn.
Fylkisliðið hefur setið á botninum nánast allt tímabilið og Ragnar sagði við mbl.is að skýringin væri í raun einföld.
„Þetta er nú bara þannig að við skorum alltof fá mörk og fáum alltof mörg mörk á okkur. Það má segja að byrjunin á mótinu felli okkur þegar við vorum aðeins með eitt stig eftir sjö leiki.
Við náðum aldrei neinum takti en það er að sjálfsögðu hrikalega svekkjandi hvernig þetta endaði hérna í Kórnum í dag," sagði Ragnar og var afar óhress með Pétur Guðmundsson dómara leiksins og taldi að hann hefði átt að vera búinn að flauta til leiksloka áður en HK jafnaði.
„Leikurinn var löngu búinn og hann var búinn að fá þrjú til fjögur tækifæri til að flauta leikinn af. Þetta var bara heigulsháttur og ekkert annað. Svo held ég að Pétur hafi dæmt einhvern tíma fyrir HK. Þetta er bara fáránlegt, átti ekki að fara svona því þetta var fínasti leikur hjá okkur. Þetta er eins svekkjandi og það verður," sagði Ragnar sem sjálfur fylgdist með úr stúkunni í dag þar sem hann var í eins leiks banni.
Hann var ánægður með frammistöðu liðsins í seinni hálfleik eftir að það lenti undir í lok þess fyrri.
„Já, það býr hellingur í þessu liði og okkur finnst við eiga að vera með mikið fleiri stig en raunin er. Við féllum ekki með einhverri skömm. En við erum með ódýrasta liðið í deildinni og þá er þetta alltaf erfitt. Við vissum að við yrðum alltaf í pakkanum þarna niðri og því miður fór þetta svona," sagði Ragnar.
Fylkismenn hafa byggt mjög á uppöldum leikmönnum og ekki sótt mikið út fyrir Árbæinn. Aðspurður hvort það myndi ekki hjálpa félaginu að koma hratt til baka í efstu deild sagði Ragnar að það yrði að koma í ljós.
„Jú, það eru góðar líkur á að við höldum flestum en það skýrist betur í haust hvernig það fer. Þegar lið fellur þarf að endurhugsa ýmsa hluti. Það ættu ekki að verða of miklar breytingar en við klárum þetta verkefni, síðustu tvo leikina og sjáum svo til hvernig það fer.
Maður verður lengi að jafna sig á þessu," sagði Ragnar Bragi Sveinsson.