Þessi ákvörðun er ekki góð fyrir neinn

Ísak Snær Þorvaldsson og Aron Jóhannsson eigast við í kvöld.
Ísak Snær Þorvaldsson og Aron Jóhannsson eigast við í kvöld. Ólafur Árdal

Halldór Árnason þjálfari Breiðabliks var nokkuð brattur þegar hann ræddi við mbl.is eftir jafntefli við Val, 2:2, í 25. umferð af 27 í Bestu deild karla í fótbolta á Kópavogsvelli í kvöld.

Breiðabliki mistókst að fara upp í toppsætið með sigrinum, en er þess í stað enn þá fyrir aftan Víking á markatölu þegar vær umferðir eru eftir.

„Mér fannst við virkilega góðir í þessum leik. Við spiluðum frábærlega en okkur var refsað fyrir þau fáu mistök sem við gerum og þá þurfum við að elta í tvígang.

Viktor Örn Margeirsson hjá Breiðabliki með boltann í kvöld.
Viktor Örn Margeirsson hjá Breiðabliki með boltann í kvöld. Ólafur Árdal

Við sýndum karakter í að koma til baka. Að endingu er það Frederik Schram sem vinnur þetta stig fyrir Val í dag með nokkrum frábærum markvörslum sem hann á hrós skilið fyrir. Við höfðum samt trú á þessu fram að síðustu sekúndu, sköpuðum færi og vorum hættulegir.

Að lokum erum við í sömu stöðu og þegar við vöknuðum í morgun. Þetta er í okkar höndum og það eru forréttindi,“ sagði Halldór um leikinn.

Röð mistaka í vörn Breiðabliks varð til þess að Tryggvi Hrafn Haraldsson kom Val yfir í fyrri hálfleik.

Ólafur Árdal

„Það var búið að vera eitt lið á vellinum og þetta var klaufalegt. Þetta getur gerst og þá er spurning hvernig menn standa upp og svara. Þetta gerist í fótbolta, áfram gakk.“

Víkingur missteig sig fyrr í dag er liðið gerði jafntefli við Stjörnuna. Blikum tókst ekki að nýta sér það til fullnustu.

„Hann var búinn á undan og engin ástæða til að vita ekki hvernig hann fór. Við ræddum hann samt ekki neitt og vorum ekki að spá í honum. Við höfum verið með örlögin í okkar höndum í nokkrar vikur og það hefur ekkert breyst. Við vorum bara að spá í okkar leik.“

En hvernig líður þjálfaranum þegar tvær umferðir eru eftir og sjálfur Íslandsmeistaratitilinn er undir?

„Mér líður vel. Það eru ekki allir sem fá að vera í þessari stöðu að berjast um titla. Ég er tilbúinn í þetta, nú er það landsleikjahlé sem kemur á fáránlegum tíma. Það hefði verið auðvelt að klára mótið fyrir hlé.

Halldór Árnason
Halldór Árnason Ljósmynd/Kristinn Steinn

Þessi ákvörðun er ekki góð fyrir neinn, hvorki okkur né öðrum liðum. Við nýtum pásuna vel, hlöðum batteríin og komum klárir í síðustu tvo leikina,“ sagði hann.

Davíð Ingvarsson skoraði bæði mörk Breiðabliks í kvöld. Hann hefur í gegnum tíðina verið bakvörður en leikið vel á kantinum undanfarnar vikur. Fyrir leikinn í kvöld var hann með eitt mark í efstu deild.

„Davíð er kannski ekki mikill markaskorari en hann hefur lagt upp mikið af mörkum fyrir okkur síðan hann kom til okkar í haust. Hann er mjög öflugur. Við höfum séð þessi skot á hverri æfingu í nokkur ár og við vissum að þetta væri í hans vopnabúri.

Davíð er frábær leikmaður sem getur bæði skorað og lagt upp. Það verður erfitt að eiga við hann ef hann heldur þessu áfram.“

Eyjólfur Héðinsson aðstoðarþjálfari Breiðabliks fékk gult spjald í fyrri hálfleik fyrir mótmæli. Stuðningsmenn Breiðabliks voru svo ósáttir við störf dómarans Elíasar Inga Árnasonar í þónokkur skipti í fyrri hálfleik. En hallaði á Blika í leiknum?  

„Ég veit það ekki. No comment,“ sagði Halldór.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert