Orri Steinn: „Ég er vel uppalinn strákur“

Orri Steinn Óskarsson.
Orri Steinn Óskarsson. mbl.is/Hákon

Knattspyrnumaðurinn Orri Steinn Óskarsson hefur skotist hratt upp á stjörnuhimininn á undanförnum árum en hann gekk til liðs við spænska stórliðið Real Sociedad á lokadegi félagaskiptagluggans í sumar.

Orri Steinn, sem er einungis tvítugur, var orðaður við fjölda liða í sumar og þar á meðal Englandsmeistara Manchester City.

Hann lék með Köbenhavn í Danmörku árin 2022 til 2024 þar sem hann skoraði 23 mörk í 62 leikjum en hann er einstaklega heill og jarðbundinn ungur maður.

Með gott fólk í kringum sig

„Ég hef alltaf sagt það að ég er með gott fólk í kringum mig,“ sagði Orri í samtali við mbl.is í Hilton-hótelinu í Reykjavík þegar hann var spurður að því hvernig hann héldi sjálfum sér svona jarðtengdum.

„Ég er vel uppalinn strákur sem þekkir sín takmörk. Ég veit hvað þarf til, til þess að standa sig sem fótboltamaður. Þú þarft að halda góðu jafnvægi, hvort sem þú skorar þrennu eða klikkar á færi fyrir opnu marki.

Þú mátt ekki fljúga of hátt eða lágt og þetta hef ég lært af fólkinu í kringum mig. Þau hjálpa mér að halda mig á jörðinni,“ bætti Orri Steinn við en hann er sonur Óskars Hrafns Þorvaldssonar, þjálfara KR í Bestu deildinni.

Viðtal við Orra Stein má sjá á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert