Þjálfarinn ósanngjarn við Íslendingana

Eggert Aron Guðmundsson ræðir við mbl.is í dag.
Eggert Aron Guðmundsson ræðir við mbl.is í dag. Karítas Sveina Guðjónsdóttir

Eggert Aron Guðmundsson fær lítið að spila hjá sænska knattspyrnuliðinu Elfsborg, en hann kom til félagsins frá uppeldisfélaginu Stjörnunni fyrir tímabilið.

Eggert hefur aðeins komið við sögu í fimm leikjum á tímabilinu og eru mínúturnar afar fáar. Leik eftir leik er hann ýmist allan tímann á bekknum eða ekki í hópnum.

„Staðan er erfið. Ég þarf að halda áfram að leggja hart að mér. Þetta er brekka núna en ég hef fulla trú á að þetta komi,“ sagði Eggert við mbl.is og hélt áfram:

„Við erum með gott lið og við unnum Roma í síðustu viku.  Ég fíla þjálfarann en hann hefur verið ósanngjarn gagnvart mér persónulega. Ég hef sýnt á æfingum að ég á fullt erindi í þetta lið. Tækifærið hlýtur að fara að koma.“

Karítas

Andri Fannar Baldursson er í svipaðri stöðu, fær nær ekkert að spila og eru þeir mikið á bekknum saman. „Andri er frábær leikmaður líka. Þjálfarinn er með ósanngjarna meðferð á okkur tveimur. Ég ræddi við hann um helgina og vildi fá að vita stöðuna mína og hún er orðin ljós núna.“

Elfsborg gerði sér lítið fyrir og vann ítalska stórliðið Roma í Evrópudeildinni í síðustu viku. Það eru því spennandi tímar hjá Elfsborg, sem Eggert þarf að fylgjast með utan vallar.

„Það er æðislegt að vera hluti af svona góðu liði en á sama tíma ertu aldrei sáttur ef þú ert ekki að spila fótbolta,“ sagði Eggert. Hann hlýtur þá að vera að hugsa sér til hreyfings?

„Það gæti farið svoleiðis, en ég og minn umboðsmaður þurfum að skoða það eftir tímabilið,“ sagði hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka