Bellamy hrósaði íslenska liðinu í hástert

Jón Dagur Þorsteinsson var nálægt því að skora glæsilegt sigurmark …
Jón Dagur Þorsteinsson var nálægt því að skora glæsilegt sigurmark í lokin. Eyþór Árnason

„Ég er ánægður,“ var það fyrsta sem Craig Bellamy landsliðsþjálfari Wales sagði við blaðamenn á fundi eftir 2:2-jafntefli Wales og Íslands á Laugardalsvelli í kvöld.

Þrátt fyrir að Wales hafi verið með 2:0 forskot í hálfleik var þjálfarinn skrautlegi sáttur í leikslok.

„Ég var svekktur að fá ekki tækifæri til að segja ykkur frá hversu gott lið Ísland er í gær. Því meira sem ég horfi á þetta lið, því meira líkar mér við þá. Ég vissi að þetta yrði erfiður leikur.

Við vorum tveimur yfir í hálfleik en við vissum að þetta yrði erfitt í seinni. Við vissum að þeir myndu henda öllu í okkur í seinni hálfleik. Við fundum ekki lausnirnar og þeir höfðu engu að tapa.

Við munum læra af þessu og gera betur næst þegar við erum í sömu stöðu. Ég er ánægður með þetta. Það hljómar kannski eins og ég sé að ljúga að sjálfum mér, en ég er í alvöru ánægður með þessi úrslit,“ sagði Bellamy og hélt áfram:

„Við þurftum þetta þriðja mark. Svo var Jói mjög sniðugur og sagði mér í hálfleik að hann hafi lesið mig,“ sagði Bellamy.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert