„Við sýndum frábæran karakter að koma til baka eftir að hafa lent 2:0-undir,“ sagði Stefán Teitur Þórðarson, leikmaður íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu, í samtali við mbl.is eftir 2:2-jafntefli liðsins gegn Wales í 4. riðli Þjóðadeildarinnar á Laugardalsvelli í kvöld.
Íslenska liðið lenti 2:0 undir í fyrri hálfleik en náði með frábærri spilamennsku í síðari hálfleik að jafna metin í 2:2.
„Við höfðum trú á þessu allan tímann og mættum mjög öflugir út í seinni hálfleikinn en fyrri hálfleikurinn var alls ekki nógu góður. Þeir fá þrjú nákvæmlega eins færi í fyrir hálfleik og skora úr tveimur þeirra. Við löguðum allt í seinni hálfleik. Pressan var miklu betri, miklu meiri ákefð í okkur og þessi seinni hálfleikur er eitt það besta sem við höfum sýnt í langan tíma. Það er ótrúlegt að við höfum ekki unnið leikinn miðað við frammistöðuna í seinni hálfleik,“ sagði Stefán Teitur.
Stefán Teitur fékk gult spjald í kvöld og verður í banni gegn Tyrklandi á mánudaginn kemur.
„Það er auðvitað ömurlegt. Ég bara skil þetta ekki! Hvernig geta tvö gul spjöld þýtt leikbann? Svona er þetta,“ bætti Stefán Teitur við í samtali við mbl.is.