„Ég sá hann inni“

Jón Dagur Þorsteinsson.
Jón Dagur Þorsteinsson. mbl.is/Eyþór Árnason

„Það voru vonbrigði að vinna ekki þennan leik,“ sagði Jón Dagur Þorsteinsson, leikmaður íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu, í samtali við mbl.is eftir 2:2-jafntefli liðsins gegn Wales í 4. riðli Þjóðadeildarinnar á Laugardalsvelli í kvöld.

Íslenska liðið lenti 2:0 undir í fyrri hálfleik en náði með frábærri spilamennsku í síðari hálfleik að jafna metin í 2:2.

„Við fengum á okkur tvö mörk en áttum að skora miklu fleiri mörk. Það var hálf skrítið að spila þennan leik. Mér fannst við ekki slakir í fyrri hálfleik en við fáum á okkur klaufaleg mörk. Heilt yfir fannst mér frammistaðan góð og sérstaklega í seinni hálfleik. Við gáfumst aldrei upp og við töluðum um það í hálfleik að við ættum góðan möguleika á því að vinna leikinn, jafnvel þó að við höfum verið 2:0-undir,“ sagði Jón Dagur.

Ætla að keyra á Tyrkina

Næsti leikur liðsins er gegn Tyrklandi á mánudaginn kemur á Laugardalsvelli.

„Það hefði verið gríðarlega svekkjandi að fá ekkert út úr þessum leik. Við þurfum að taka þetta stig með okkur og allt það jákvæða sem við gerðum í kvöld inn í leikinn gegn Tyrkjum og keyra svo almennilega á þá.“

Jón Dagur var nálægt því að tryggja Íslandi sigur á lokamínútum leiksins en skot hans fór í stöngina.

„Ég sá hann inni en það var stöngin í dag. Vonandi skora ég næst,“ bætti Jón Dagur við í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert