Fjarsambandið tók á hjá fótboltaparinu

Fótboltaparið Valgeir Lunddal Friðriksson og Diljá Ýr Zomers.
Fótboltaparið Valgeir Lunddal Friðriksson og Diljá Ýr Zomers. mbl.is/Eggert

„Það nennir enginn að koma til Íslands og spila í núll gráðum og vindi þannig að við þurfum að nýta okkur það,“ sagði Valgeir Lunddal Friðriksson, leikmaður íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu, í samtali við mbl.is á Hilton-Nordica-hótelinu í Reykjavík í vikunni.

Ísland mætir Wales og Tyrklandi í komandi landsleikjaglugga en fyrri leikurinn er gegn Wales á morgun og sá síðari gegn Tyrklandi á mánudaginn og fara fara þeir báðir fram á Laugardalsvelli.

„Við þurfum helst að vinna báða leikina hérna á heimavelli ef við ætlum okkur að gera eitthvað í þessum riðli og markmiðið er að taka 6 stig út úr þessum tveimur leikjum. Það skiptir okkur öllu máli að fólk mæti á völlinn og það hefur sýnt sig í gegnum tíðina hversu miklu máli það skiptir.

Þegar landsliðið fór á þessi tvö stórmót þá var fullur völlur á hverjum einasta leik. Við þurfum að endurskapa þessa stemningu á Laugardalsvelli. Á sama tíma þurfum við að standa okkur vel inn á vellinum og vinna leiki en það skiptir okkur ótrúlega miklu máli að finna og heyra í fólkinu í stúkunni,“ sagði Valgeir sem á að baki 11 A-landsleiki.

Góðir tímar framundan

Valgeir er í sambandi með knattspyrnukonunni Diljá Ýr Zomers en þau léku saman í Svíþjóð í tvö ár áður en Diljá færði sig um set og flutti til Belgíu þar sem hún leikur með OH Leuven.

„Við erum búin að fara í gegnum góða og slæma tíma en það eru góðir tímar framundan. Það eru ekki nema tvær klukkustundir á milli okkar núna í keyrslu þannig að ég hlakka mikið til þess að geta eytt meiri tíma með henni.

Maður var ekkert mikið að skreppa til Belgíu, þegar ég var að spila í Svíþjóð, enda allavega ein flugvél á milli okkar. Þetta var mjög góður tími sem við áttum saman í Svíþjóð og það var ekki auðvelt skref fyrir hana að fara til Belgíu en hún þurfti líka að hugsa um vinnuna sína. Henni gengur mjög vel í Belgíu og ég er mjög stoltur af henni,“ sagði Valgeir en Diljá Ýr á að baki 16 A-landsleiki.

Valgeir gekk til liðs við þýska B-deildarfélagið Fortuna Düsseldorf í sumar og næsta skref hlýtur að vera að finna lið fyrir hana í Þýskalandi?

„Ég er á fullu í því að reyna finna lið fyrir hana í Þýskalandi núna,“ bætti Valgeir við og hló í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert