Fótboltinn er klikkaður stundum

Logi Tómasson og Åge Hareide fagna marki í kvöld.
Logi Tómasson og Åge Hareide fagna marki í kvöld. Eyþór Árnason

Åge Hareide landsliðsþjálfari Íslands í fótbolta var sáttur við endurkomu íslenska liðsins gegn því velska í Þjóðadeildinni í fótbolta á Laugardalsvelli í kvöld.

Wales var með 2:0-forystu í hálfleik en Ísland svaraði í seinni hálfleik með tveimur mörkum frá varamanninum Loga Tómassyni.

„Fótboltinn er klikkaður stundum. Þú undirbýr liðið eins vel og hægt er, sérstaklega á móti svona góðu liði. Þeir komust tvisvar aftur fyrir okkur, mistökin gerast. Stundum er þér refsað.

Okkur var refsað og við breyttum liðinu fyrir seinni hálfleik. Við spiluðum mjög vel í seinni. Vorum árásargjarnari og það erfitt að spila á móti okkur. Við áttum að vinna þennan leik“ sagði sá norski á blaðamannafundi eftir leik.

En hvað sagði hann við strákana í hálfleik?

„Ég sagði ekki mikið. Ég gerði bara tvær skiptingar. Við vorum ekki sáttir við fyrri hálfleikinn. Við vildum laga það og fá hlaup frá kantmönnum og verjast betur. Logi og Mikael komu inn og voru góðir.

Þeir sem fóru af velli áttu ekki sinn besta dag, en þeir eru mikilvægir fyrir liðið. Þeir sem komu inn á gerðu vel,“ sagði Hareide og hrósaði síðan hetjunni Loga Tómassyni.

„Hann er góður strákur. Hann er framtíðarmaður. Ég er ánægður með að fá varnarmenn sem eru með sjálfstraust. Nú fer ég að hlusta á tónlistina hans,“ sagði Hareide.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert