Gylfi Þór: „Þeirra starf er mjög krefjandi“

Gylfi Þór Sigurðsson.
Gylfi Þór Sigurðsson. mbl.is/Eyþór Árnason

„Miðað við það hvernig fyrri hálfleikurinn þróaðist þá getum við verið nokkuð sáttir með stigið,“ sagði Gylfi Þór Sigurðsson, leikmaður íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu, í samtali við mbl.is eftir 2:2-jafntefli liðsins gegn Wales í 4. riðli Þjóðadeildarinnar á Laugardalsvelli í kvöld.

Íslenska liðið lenti 2:0 undir í fyrri hálfleik en náði með frábærri spilamennsku í síðari hálfleik að jafna metin í 2:2.

„Mér fannst við ekki slæmir varnarlega í fyrri hálfleik. Þetta var nánast sama hlaupið og sama markið í fyrri hálfleik. Þeir eru með gott lið og góða leikmenn. Þetta var heldur þurrt í fyrri hálfleik en fyrir áhorfendur var þetta líklegaast frábær skemmtun í síðari hálfleik,“ sagði Gylfi Þór.

Vill spila alla leiki

Gylfi byrjaði á bekknum í kvöld en kom inn á seint í síðari hálfleik.

„Maður vill alltaf spila alla leiki en ég skil það svo sem vel að ég hafi byrjað á bekknum. Ég var búinn að missa af tveimur leikjum og náði tveimur æfingum. Ég er að koma til baka, hægt og rólega.“

Gylfi er að koma til baka eftir bakmeiðsli en völlurinn virkaði ansi harður í kvöld.

„Undir lokin þá var þetta orðið frekar hart en ég verð að gefa vallarstarfsmönnunum hrós fyrir þá vinnu sem þeir eru búnir að leggja í völlinn, þeirra starf er mjög krefjandi. Völlurinn er góður miðað við aðstæður,“ bætti Gylfi Þór við í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert