„Ég er fyrst og fremst svekktur að hafa ekki unnið þennan leik,“ sagði Sverrir Ingi Ingason, leikmaður íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu, í samtali við mbl.is eftir 2:2-jafntefli liðsins gegn Wales í 4. riðli Þjóðadeildarinnar á Laugardalsvelli í kvöld.
Íslenska liðið lenti 2:0 undir í fyrri hálfleik en náði með frábærri spilamennsku í síðari hálfleik að jafna metin í 2:2.
„Mér fannst við vera með öll völd á vellinum í seinni hálfleik og við fáum einhver fimm til sex dauðafæri til þess að skora. Á sama tíma var mikill karakter í liðinu að koma til baka eftir að hafa lent 2:0-undir og það er klárlega eitthvað sem við getum byggt á farandi inn í leikinn gegn Tyrkjum,“ sagði Sverrir Ingi.
Það var allt annað að sjá til íslenska liðsins í síðari hálfleik.
„Við spiluðum seinni hálfleikinn eins og við eigum að spila á heimavelli. Við þurfum að vera eins og hundar, andandi ofan í hálsmálið á mótherjunum, og við gerðum það í seinni hálfleik. Wales-liðinu leið alls ekki vel í þessari pressu, þrátt fyrir að vera 2:0-yfir í leiknum. Það var algjör óþarfi að lenda undir í þessum leik, miðað við þá yfirburði sem við höfðum, og þetta er eitthvað sem við verðum að læra af.“
Logi Tómasson átti frábæra innkomu hjá íslenska liðinu í hálfleik.
„,Við vorum strax byrjaðir að gíra hann niður inn í klefa eftir leikinn. Logi talar um það að vera í laser, laserfókus, og við erum að fara spila upp á fyrsta sæti riðilsins á mánudaginn þar sem við ætlum okkur sigur“ bætti Sverrir Ingi við í samtali við mbl.is.