Logi Tómasson skoraði sín fyrstu landsliðsmörk er Ísland og Wales skildu jöfn, 2:2, í Þjóðadeildinni í fótbolta á Laugardalsvelli í kvöld. Wales var með 2:0 forystu í hálfleik en Logi skoraði tvö mörk í seinni hálfleik, eftir að hann kom inn á sem varamaður, og tryggði eitt stig.
Ísland er í þriðja sæti riðilsins með fjögur stig. Wales er í öðru með fimm. Tyrkland er í toppsætinu með sjö stig.
Wales byrjaði betur og skoraði fyrsta markið á tíundu mínútu. Harry Wilson slapp þá í gegn og tókst Hákoni Rafni Valdimarssyni að verja frá honum en Brennan Johnson til að pota boltanum yfir línuna.
Wilson fékk annað færi á 24. mínútu er hann skaut í varnarmann rétt utan teigs og boltinn í stöngina. Wilson hélt áfram að reyna og það skilaði sér í öðru markinu á 29. mínútu er hann slapp aftur í gegn og skoraði af öryggi, eftir sendingu frá Neco Williams, sem átti einnig stóran þátt í fyrsta markinu.
Tveimur mínútum síðar var Andri Lucas Guðjohnsen nálægt því að minnka muninn. Hann átti þá gott skot að marki eftir sendingu frá Kolbeini Birgi Finnssyni en Williams bjargaði á marklínu.
Sorba Thomas átti síðasta færi hálfleiksins er hann slapp í gegn en Hákon Rafn gerði mjög vel í að loka á hann. Voru hálfleikstölur því 2:0.
Íslenska liðið byrjaði seinni hálfleikinn af krafti og varamaðurinn Mikael Egill Ellertsson og Orri Steinn Óskarsson fengu báðir færi á fyrstu fimm mínútunum. Mikael skaut framhjá úr góðu færi í teignum á meðan Orri negldi boltanum í slána eftir góðan snúning.
Andri Lucas og Jóhann Berg fengu næstu færi. Andri Lucas skaut framhjá í teignum og Danny Ward varði virkilega vel frá Jóhanni er fyrirliðinn skaut utan teigs.
Ward kom hins vegar engum vörnum við á 68. mínútu er Logi Tómasson minnkaði muninn með glæsilegu marki. Hann gerði sér þá lítið fyrir og smellti boltanum utanfótar í bláhornið fjær utan teigs.
Logi var ekki hættur því aðeins fjórum mínútum seinna jafnaði hann í 2:2. Bakvörðurinn tók þá sprett upp vinstri kantinn, lék á varnarmann og skoraði úr mjög þröngu færi eftir hælsendingu frá Jóni Degi.
Ísland var nær því að skora sigurmarkið því Jón Dagur átti glæsilegt skot utan teigs á lokamínútunni en boltinn fór í stöngina. Skiptu liðin því með sér stigunum.