Stórkostleg innkoma Loga tryggði Íslandi stig

Logi Tómasson skoraði sín fyrstu landsliðsmörk er Ísland og Wales skildu jöfn, 2:2, í Þjóðadeildinni í fótbolta á Laugardalsvelli í kvöld. Wales var með 2:0 forystu í hálfleik en Logi skoraði tvö mörk í seinni hálfleik, eftir að hann kom inn á sem varamaður, og tryggði eitt stig.

Ísland er í þriðja sæti riðilsins með fjögur stig. Wales er í öðru með fimm. Tyrkland er í toppsætinu með sjö stig.

Wales byrjaði betur og skoraði fyrsta markið á tíundu mínútu. Harry Wilson slapp þá í gegn og tókst Hákoni Rafni Valdimarssyni að verja frá honum en Brennan Johnson til að pota boltanum yfir línuna.

Wes Burns og Logi Tómasson, sem skoraði bæði mörk Íslands.
Wes Burns og Logi Tómasson, sem skoraði bæði mörk Íslands. mbl.is/Eyþór

Wilson fékk annað færi á 24. mínútu er hann skaut í varnarmann rétt utan teigs og boltinn í stöngina. Wilson hélt áfram að reyna og það skilaði sér í öðru markinu á 29. mínútu er hann slapp aftur í gegn og skoraði af öryggi, eftir sendingu frá Neco Williams, sem átti einnig stóran þátt í fyrsta markinu.

Tveimur mínútum síðar var Andri Lucas Guðjohnsen nálægt því að minnka muninn. Hann átti þá gott skot að marki eftir sendingu frá Kolbeini Birgi Finnssyni en Williams bjargaði á marklínu.

Sorba Thomas átti síðasta færi hálfleiksins er hann slapp í gegn en Hákon Rafn gerði mjög vel í að loka á hann. Voru hálfleikstölur því 2:0.

Ben Davies sækir að Orra Steini Óskarssyni.
Ben Davies sækir að Orra Steini Óskarssyni. Eyþór Árnason

Íslenska liðið byrjaði seinni hálfleikinn af krafti og varamaðurinn Mikael Egill Ellertsson og Orri Steinn Óskarsson fengu báðir færi á fyrstu fimm mínútunum. Mikael skaut framhjá úr góðu færi í teignum á meðan Orri negldi boltanum í slána eftir góðan snúning.

Andri Lucas og Jóhann Berg fengu næstu færi. Andri Lucas skaut framhjá í teignum og Danny Ward varði virkilega vel frá Jóhanni er fyrirliðinn skaut utan teigs.

Ward kom hins vegar engum vörnum við á 68. mínútu er Logi Tómasson minnkaði muninn með glæsilegu marki. Hann gerði sér þá lítið fyrir og smellti boltanum utanfótar í bláhornið fjær utan teigs.

Ben Davies og Orri Steinn Óskarsson.
Ben Davies og Orri Steinn Óskarsson. mbl.is/Eyþór

Logi var ekki hættur því aðeins fjórum mínútum seinna jafnaði hann í 2:2. Bakvörðurinn tók þá sprett upp vinstri kantinn, lék á varnarmann og skoraði úr mjög þröngu færi eftir hælsendingu frá Jóni Degi.

Ísland var nær því að skora sigurmarkið því Jón Dagur átti glæsilegt skot utan teigs á lokamínútunni en boltinn fór í stöngina. Skiptu liðin því með sér stigunum.  

Lýsing uppfærist sjálfkrafa

Allar lýsingar í beinni

Ísland 2:2 Wales opna loka
90. mín. Jón Dagur Þorsteinsson (Ísland) á skot í stöng Hársbreidd! Glæsileg skyndisókn Íslands endar með að Jón Dagur fær boltann á vinstri kantinum, færir boltann yfir á hægri fótinn og leggur boltann í stöngina. Þetta hefði verið æðislegt mark.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert