Þegar Ásgeir eyðilagði HM-draum Wales (myndskeið)

Ásgeir Sigurvinsson átti einn af sínum bestu landsleikjum gegn Wales …
Ásgeir Sigurvinsson átti einn af sínum bestu landsleikjum gegn Wales árið 1981. Ljósmynd/Bjarni J. Eiríksson

Ísland hefur oftast átt í erfiðleikum gegn Wales í A-landsleikjum þjóðanna í knattspyrnu karla en fyrir leikinn á Laugardalsvellinum í kvöld er ástæða til að rifja upp eftirminnlega viðureign þjóðanna frá árinu 1981.

Þá mættust Wales og Ísland í Swansea þann 14. október, í undankeppninni fyrir HM á Spáni 1982, en Walesbúar voru í hörðum slag um sæti í lokakeppninni.

Wales hafði unnið fyrri leikinn mjög örugglega, 4:0, á Laugardalsvellinum árið áður og flestir reiknuðu með sigri líka í heimaleiknum. Svo mjög að nokkrir leikmanna liðsins létu hafa sig úti þá vitleysu af einu bresku dagblaðanna að vera myndaðir með apagrímur, og því fylgdu þau orð að Walesbúar ætluðu að gera Íslendinga að öpum í leiknum.

Þetta kynti vel upp í íslenska liðinu, og ekki síst Ásgeiri Sigurvinssyni, sem þá var nýorðinn leikmaður þýska stórveldisins Bayern München sem keypti hann af Standard Liege í Belgíu.

Ásgeir skoraði bæði mörk Íslands en hann jafnaði fyrst 1:1 á 41. mínútu með snyrtilegri hælspyrnu eftir fyrirgjöf Arnórs Guðjohnsens og jafnaði svo aftur í 2:2 á 61. mínútu með gríðarlega föstu skoti sem Dai Davies í marki Walesbúa réð ekkert við.

Robbie James og Alan Curtis komu Wales í 1:0 og 2:1 en Walesbúar urðu að sætta sig við jafntefli þegar upp var staðið. Þeir töpuðu dýrmætu stigi og komust ekki á HM 1982.

Lið Íslands var þannig skipað í leiknum: Guðmundur Baldursson - Örn Óskarsson, Sævar Jónsson, Marteinn Geirsson, Viðar Halldórsson - Janus Guðlaugsson, Magnús Bergs, Ásgeir Sigurvinsson, Pétur Ormslev - Atli Eðvaldsson, Arnór Guðjohnsen.

Guðni Kjartansson þjálfaði lið Íslands og gerði engar innáskiptingar en á varamannabekknum sátu Þorsteinn Bjarnason markvörður, Ólafur Björnsson, Ragnar Margeirsson, Sigurður Halldórsson og Sigurður Lárusson.

Hér má sjá rúmlega sjö mínútna samantekt úr leiknum en mörk Ásgeirs koma eftir 4,30 mínútur og 5,30 mínútur. Takið eftir viðbrögðum Ásgeirs eftir seinna markið þar sem hann minnir Walesbúana á apagrímurnar umræddu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert