Gamla ljósmyndin: Heilbrigðisráðherrann

Morgunblaðið/KGA

Íþrótta­deild Morg­un­blaðsins og mbl.is held­ur áfram að gramsa í mynda­safni Morg­un­blaðsins og birta á mbl.is á laug­ar­dög­um. 

Willum Þór Þórsson er reglulega í sviðsljósinu sem heilbrigðisráðherra og hefur gegnt embættinu frá því í nóvember 2021. Margir íþróttaunnendur vita að Willum Þór var knattspyrnuþjálfari og gerði bæði karlalið KR og Vals að Íslandsmeisturum. 

Ef til vill vita færri að Willum Þór vann ansi merkilegt afrek sem leikmaður ef þannig má að orði komast. Hann á að baki leiki í efstu deild í þremur boltagreinum, knattspyrnu, handknattleik og körfuknattleik. Náði hann að spila með uppeldisfélaginu KR í efstu deild í öllum greinum. 

Lék hann í mörg ár í meistaraflokki í knattspyrnunni og handknattleiknum og hætti snemma í körfunni en á engu að síður níu leiki skráða með KR í efstu deild í körfunni 1980-1981. Raunar lék hann leiki með yngri landsliðum í körfunni sem og í fótboltanum.  

Meðfylgjandi mynd tók Kristján G. Arngrímsson fyrir Morgunblaðið sumarið 1987 þegar FH og KR mættust í Kaplakrika í 11. umferð í efstu deild karla í knattspyrnu.

Willum Þór sækir að marki FH en Guðmundi Hilmarssyni, sem um tíma var fyrirliði FH, tekst að trufla Willum í skallaeinvígi. Leiðir þeirra Willums og Guðmundar liggja enn saman því Guðmundur tekur af og til viðtöl við Willum fyrir mbl.is eftir ríkisstjórnarfundi. 

Á myndinni eru einnig frá vinstri Skotinn Ian Fleming sem þá var spilandi þjálfari FH. Þá Andri Marteinsson sem þá lék með KR og númer 7 er Ágúst Már Jónsson sem var landsliðsmaður á þessum tíma.

FH hafði betur í leiknum 2:1 og skoraði Guðmundur Hilmarsson annað mark FH úr vítaspyrnu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka