VAR-myndbandsdómgæslan var í stóru hlutverki í leik Íslands og Tyrklands í 4. riðli B-deildar Þjóðadeildar karla í knattspyrnu á Laugardalsvelli í kvöld.
Leiknum lauk með sigri Tyrklands, 4:2, en íslenska liðið leiddi með einu marki gegn engu í hálfleik.
Íslenska liðið er með 4 stig í þriðja sæti riðilsins en Tyrkir eru í efsta sætinu með 10 stig. Wales er með 8 stig í öðru sætinu en Svartfjallaland rekur lestina án stiga.
Næstu leikir íslenska liðsins eru gegn Svartfjallalandi, 16. nóvember, og Wales, 19. nóvember, og fara þeir báðir fram ytra.
Leikurinn fór svo sannarlega fjörlega af stað því strax á 3. mínútu kom Orri Steinn Óskarsson íslenska liðinu yfir.
Mikael Anderson átti þá frábæra stungusendingu á Orra sem tók við boltanum á miðlínunni. Hann keyrði í átt að marki og Abdülkerim Bardakci, bakvörður Tyrkja, hafði ekki roð við honum. Orri Steinn gerði frábærlega í að halda honum fyrir aftan sig, koma sér inn á teiginn, og Orri átti því þrumuskot upp í þaknetið sem Ugurvan Cakir í marki Tyrkja réð ekki við.
Tyrkir áttu nokkur ágætis skot fyrir utan teig eftir þetta en á 14. mínútu kom Mikael Anderson sér í ágætis færi úti vinstra megin. Hann átti síðan skot, með mann í sér, sem Cakir í markinu varði.
Tyrkir héldu áfram að þjarma að íslenska liðinu og fóru næstu mínútur leiksins að stórum hluta fram á vallarhelmingi Íslands. Tyrkjum gekk hins vegar ekki vel að skapa sér afgerandi marktækifæri og flestar sóknir þeirra enduðu með skotum fyrir utan teig sem Hákon Rafn Valdimarsson í marki Íslands varði frekar þægilega.
Á 36. mínútu átti Logi Tómasson þrumuskot af 35 metra færi eftir hornspyrnu sem Tyrkir höfðu skallað frá marki. Cakir varði boltann en tókst ekki að halda honum. Daníel Leó Grétarsson var fyrstur að átta sig í teignum en Cakir var fyrri til, komst fyrir skotið, og Tyrkjum tókst að hreinsa frá marki á síðustu stundu,
Kenan Yldis og Ferdi Kadioglu átti báðir skot með stuttu millibili undir lok fyrri hálfleiks en enn og aftur var Hákon Rafn vel staðsettur í markinu og Ísland því 1:0 yfir í hálfleik.
Tyrkir byrjuðu síðari hálfleikinn af miklum krafti og á 49. mínútu átti Hakan Calhanoglu skot sem fór af Jóhanni Berg Guðmundssyni og í stöngina.
Á 53. mínútu fengu Tyrkir dæmda vítaspyrnu eftir að boltinn fór í höndina á Sverri Inga Ingasyni innan teigs. Damian Sylwestrzak, dómari leiksins, fór í VAR-myndbandsskjáinn og eftir að hafa skoðað atvikið stuttlega benti hann á punktinn.
Calhanoglu steig á punktinn og skoraði en hann rann í skotinu, fékk boltann upp í fótinn á sér og markið var því réttilega dæmt af.
Níu mínútum síðar tókst Tyrkjum að jafna metin í 1:1 þegar Írfan Can Kahveci fékk allan tímann í heiminum til þess að athafna sig fyrir utan vítateig íslenska liðsins. Hann átti þrumuskot, með vinstri fæti, og boltinn söng í hægra horninu en Hákon Þór var þó í boltanum
Fimm mínútum síðar fengu Tyrkir aðra vítaspyrnu þegar boltinn fór í hönd Andra Lucasar Guðjohnsen innan teigs. Dómarinn fór aftur í VAR-myndbandsskjáinn og tók sér aftur nokkrar sekúndur í að skoða atvikið áður en hann benti á punktinn. Í þetta sinn gerði Calhanoglu engin mistök og skoraði af öryggi og Tyrkir komnir yfir í fyrsta sinn í leiknum, 2:1.
Leikurinn róaðist mikið eftir þetta og Orri Steinn Óskarsson fékk frábært færi til þess að jafna metin fyrir Ísland á 77. mínútu. Ísak Bergmann Jóhannesson átti þá frábæra sendingu fyrir markið á Andra Lucas sem rétt missti af boltanum. Tyrkir hreinsuðu og boltinn datt fyrir fætur Orra sem átti þrumuskot en úr teignum en Merih Demiral bjargaði á marklínu. Íslenska liðið vildi fá vítaspyrnu þar sem Demiral virtist handleika knöttinn en eftir mikla reikistefnu var ekkert dæmt.
Sex mínútum síðar, á 83. mínútu, tókst íslenska liðinu svo að jafna metin í 2:2. Valgeir Lunddal átti þá frábæra fyrirgjöf frá hægri og Andri Lucas stökk hæst í teignum. Hann skallaði boltann af miklu harðfylgi í netið og leikurinn aftur orðinn jafn.
Tyrkirnir höfðu ekki sagt sitt síðasta og á 88. mínútu skoraði Arda Güler sigurmark leiksins. Hákon Rafn var þá allt of lengi að athafna sig í marki íslenska liðsins, eftir að hann fékk sendingu til baka. Aktürkoglu vann boltann og boltinn barst svo til Arda Güler sem var einn fyrir opnu marki. Hann gerði engin mistök og skoraði af öryggi.
Karem Aktürkoglu gerði svo endanlega út um vonir íslenska liðsins með marki í uppbótartíma. Hann fékk þá boltann úti hægri megin og lagði hann yfir Hákon Rafn í markinu, utan teigs, og lokatölur á Laugardalsvelli 4:2, Tyrkjum í vil.