Landsleikur Íslands og Tyrklands í 4. riðli B-deildar Þjóðadeildar karla í knattspyrnu fer fram á Laugardalsvelli í kvöld eins og til stóð.
Þetta kom fram í tilkynningu sem KSÍ birti á samfélagsmiðlinum sínum i dag en það kom til greina að fresta leiknum á einhverjum tímapunkti vegna vallarskilyrða í Laugardalnum.
„UEFA hefur staðfest að leikur Íslands og Tyrklands fer fram á Laugardalsvelli í kvöld á tilsettum tíma,“ segir í tilkynningu KSÍ.
„Ákvörðunin var tekin að lokinni vallarskoðun sem fór fram kl. 14:00 í dag þar sem viðstaddir voru dómarar leiksins og aðrir fulltrúar UEFA, ásamt fulltrúum beggja liða,“ segir enn fremur í tilkynningunni.