Ótrúlegt að dómarinn hafi ekki skoðað það

Jóhann Berg Guðmundsson í leiknum í kvöld.
Jóhann Berg Guðmundsson í leiknum í kvöld. Eyþór

Jóhann Berg Guðmundsson, fyrirliði íslenska landsliðsins í fótbolta, var svekktur er hann ræddi við mbl.is eftir tapið fyrir Tyrklandi, 4:2, í Þjóðadeildinni á Laugardalsvelli í kvöld.

„Það er svekkjandi að tapa þessum leik og sérstaklega þegar sem komumst yfir og jöfnum í 2:2. Við áttum líka að fá víti og rautt í stöðunni 2:1. Það er ótrúlegt að dómarinn hafi ekki skoðað það, eins og hann gerði á báðum tilvikunum þegar þeir fá víti.

Hann gerir sig stærri og ver á línunni. Það hefði breytt leiknum. Við jöfnum í 2:2 og meðbyrinn er með okkur en svo gerum við mistök sem er erfitt að kyngja. Við reynum svo að jafna í lokin og þá skora þeir frábært fjórða mark.

Hann sagði að höndin á honum hafi verið upp við líkamann á honum en hann ýtir hendinni í boltann. Hann gerir sig stærri og er á marklínunni. Hann ýtir hendinni í boltann. Ég spurði dómarann út í þetta, því það er einhver annar en hann sem er að dæma leikinn á þessu augnabliki,“ sagði Jóhann út í stór augnablik leiksins.

Í stöðunni 2:2 gerði Hákon Rafn Valdimarsson í marki Íslands slæm mistök og Tyrkland komst í 3:2 og skammt eftir.

„Þetta var erfiður bolti til baka á Hákon, sem á að negla boltanum í burtu í fyrsta en hann vildi halda spilinu gangandi. Þetta er erfiður völlur og það sást klárlega,“ sagði hann.

Leikmenn Íslands fengu ekki að vita fyrr en klukkan 14 að leikurinn færi fram, en til greina kom að fresta honum þar sem grasið á Laugardalsvelli er illa farið vegna kulda.

„Óvissa er aldrei góð en við fengum nokkuð snemma að vita að við myndum spila og það var ekkert vandamál. Auðvitað var völlurinn ekki eins og maður er vanur. Það var erfitt að snúa, en völlurinn var eins fyrir báða aðila,“ sagði Jóhann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert