Pirrandi og óskiljanlegt

Andri Lucas Guðjohnsen skorar markið sitt.
Andri Lucas Guðjohnsen skorar markið sitt. Eyþór

„Það var gaman að spila þennan leik og mér leið ótrúlega vel inni á vellinum,“ sagði Andri Lucas Guðjohnsen, annar af markaskorurum Íslands í tapinu gegn Tyrklandi, 4:2, í Þjóðadeild karla í fótbolta á Laugardalsvelli í kvöld.

„Mér finnst við ekki hafa átt að tapa þessum leik 4:2. Það eru ósanngjörn úrslit. Þetta var kaflaskipt í seinni þegar menn voru orðnir þreyttir. Þetta var fram og til baka. Bæði lið fengu sín tækifæri. Þeir nýtu sín færi betur og refsuðu okkar mistökum,“ sagði Andri.

Hann jafnaði í 2:2 í seinni hálfleik, en Tyrkland svaraði með tveimur mörkum undir lokin. „Ég hafði fulla trú á að við gætum unnið þennan leik og sérstaklega eftir að ég jafna í 2:2. Það var geggjað fyrir mig eftir að ég gaf víti hinum megin. Svona hlutir gerast.“

Tyrkland komst í 2:1 með marki úr víti sem dæmt var á Andra, en hann fékk boltann í höndina innan teigs.

Andri Lucas fagnar marki sínu í kvöld.
Andri Lucas fagnar marki sínu í kvöld. mbl.is/Eyþór

„Ég fór upp í skallabolta og skil eftir höndina í ónáttúrulegri stöðu. Svona gerist og þegar það gerist snýst allt um að koma sér aftur inn í leikinn og ég er ánægður með að hafa náð því,“ sagði Andri, sem var mjög ánægður með markið sitt.

„Þetta var frábært mark. Ég réðst almennilega á boltann. Ég vann skallaboltann á móti varnarmanninum og markverðinum sem kom út. Ég hoppa hærra og þetta var flott mark.“

Andri og Orri Steinn Óskarsson virðast ná mjög vel saman í framlínu íslenska liðsins.

Andri svekktur eftir tyrkneskt mark.
Andri svekktur eftir tyrkneskt mark. Eyþór

„Það er mjög skemmtilegt að spila með honum. Við erum mjög góðir vinir og hann er frábær leikmaður. Ég er byrjaður að læra á hann. Ég get verið aðeins aftar og leyft honum að vera nær markinu. Þá get ég unnið í kringum hann. Svo er geggjað að hafa tvo framherja í teignum. Við vorum tveir klárir þegar ég skoraði.“

Ísland vildi fá víti í seinni hálfleik þegar Orri Steinn var við það að skora en varnarmaður Tyrklands varði boltann með hendinni.

„Það er pirrandi og óskiljanlegt að hann hafi ekki skoðað atvikið í skjánum. Það er lítið hægt að gera í því og svo vildi hann ekki leyfa okkur að tala við sig til að fá útskýringar. Hann dæmir og það er lítið sem við getum gert,“ sagði Andri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert