Stóru augnablikin ekki með okkur

Hákon Rafn Valdimarsson svekktur í markinu ásamt landsliðsfélögum sínum.
Hákon Rafn Valdimarsson svekktur í markinu ásamt landsliðsfélögum sínum. mbl.is/Eyþór

„Ég mun þurfa að skoða þetta aftur,“ sagði Hákon Rafn Valdimarsson í samtali við mbl.is eftir tap fyrir Tyrkjum, 4:2, í 4. riðli B-deildar Þjóðadeildarinnar í knattspyrnu karla á Laugardalsvelli í kvöld. 

Ísland er með fjögur stig í þriðja sæti riðilsins, fjórum stigum á eftir Wales í öðru sæti og sex stigum á eftir toppliði Tyrkja. Svartfjallaland er síðan án stiga neðst. 

„Þetta er gríðarlega svekkjandi,“ sagði Hákon beint eftir leik. 

Hvað klikkaði?

„Mistök leikmanna. Við héldum lítið í boltann og lögðumst mikið niður. Fullt af hlutum spiluðu inn í.“

Heilt yfir í lagi

Íslensku leikmennirnir sem og stuðningsmenn voru afar ósáttir við dómara leiksins og vildu víti og rautt spjald í stöðunni 2:1 fyrir Tyrklandi. Auk þess fengu Tyrkir tvær vítaspyrnur. 

Hákoni fannst dómgæslan heilt yfir allt í lagi en að stóru augnablikin féllu með Tyrkjum. 

„Heilt yfir allt í lagi en stóru augnablikin voru alls ekki með okkur í kvöld.“

Mikil óvissa

Hvernig meturðu landsleikjagluggann í heild sinni?

„Margt mjög gott en annað ekki eins gott. Fullt af góðum hlutum sem við höfum sýnt en ekki nógu gott að hafa fengið aðeins eitt stig út úr þessu. 

Við verðum að skoða það aftur í nóvember þegar við hittumst. Taka góðu hlutina með og læra af mistökum.“

Mikil óvissa ríkti um hvort það yrði leikur í kvöld vegna vallarástandsins. Hákon sagði þó leikmenn hafa undirbúið sig eins og það væri leikur í kvöld. 

„Það var skrítið en við undirbjuggum okkur fyrir að það væri leikur og síðan var leikur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert