Valgeir Lunddal Friðriksson var að vonum svekktur í samtali við mbl.is eftir tap fyrir Tyrkjum, 4:2, í 4. riðli B-deildar Þjóðadeildarinnar í knattspyrnu karla á Laugardalsvelli í kvöld.
„Það er hundfúlt að tapa. Við náum að jafna líkt og gegn Wales eftir að hafa lent undir en síðan missum við þetta niður. Þetta er mjög svekkjandi fyrir okkur,“ sagði Valgeir beint eftir leik.
Ísland er ekki í góðri stöðu í riðlinum en liðið er með fjögur stig eftir jafnmarga leiki. Wales er með átta í öðru sæti og Tyrkland tíu í fyrsta sæti.
„Tyrkir eru mjög sterkir en það hafa sterk liðið komið hingað í gegnum tíðina. Við erum kannski ekki sterkari aðilinn á vellinum en erum sterkari að verjast og í hraðaupphlaupum.
Við verðum hins vegar að halda út. Mér fannst við mögulega reyna of mikið að taka öll þrjú stigin, þótt það hefði verið gott.
Þeir eru með góða leikmenn sem kláruðu leikinn,“ bætti Valgeir við.
Undirbúningur íslenska liðsins var skrítinn en það var ekki ljóst fyrr en klukkan 14 í dag hvort að leikurinn færi fram.
„Mjög skrítinn undirbúningur. Efasemdir um hvort leiknum yrði frestað eða ekki. Við hugsuðum samt bara eins og að við værum að fara að spila sem heppnaðist.
Við komumst yfir og náðum að herja á þá en þeir eru með mjög sterka leikmenn sem sást í kvöld.“
Valgeir spilaði allar mínútur í þessum landsleikjaglugga en hlutverk hans í landsliðinu hefur farið vaxandi undanfarið.
„Það er gott að vera kominn inn í þetta almennilega. Vonandi náði ég að sýna hvað í mér býr og fæ fleiri tækifæri í framtíðinni.
Ég er mjög sáttur við það en auðvitað væri ég til í fleiri stig,“ bætti Valgeir Lunddal við.