Tókst loksins í áttundu tilraun

Andri Lucas Guðjohnsen jafnar fyrir Ísland, 2:2, í leiknum í …
Andri Lucas Guðjohnsen jafnar fyrir Ísland, 2:2, í leiknum í kvöld en Arnór afi hans skoraði fjögur mörk gegn Tyrkjum árið 1991. mbl.is/Eyþór

Óhætt er að segja að sigur Tyrkja gegn Íslendingum á Laugardalsvellinum í kvöld hafi verið langþráður því þetta var þeirra fyrsti sigur þar í átta heimsóknum.

Ísland hefur haft betra tak á Tyrkjum en á nokkurri annarri þjóð þegar kemur að mótsleikjum á Laugardalsvellinum. Þjóðirnar höfðu áður mæst sjö sinnum á þjóðarleikvanginum og Ísland sigrað sex sinnum en einu sinni orðið jafntefli.

1 - Þetta hófst allt á Laugardalsvellinum 9. september 1981 þegar Ísland vann leik þjóðanna í undankeppni HM, 2:0, þar sem Lárus Guðmundsson og Atli Eðvaldsson skoruðu mörkin. Ári áður hafði Ísland unnið frækinn útisigur í fyrsta leik þjóðanna, 3:1, í sömu keppni.

2 - Ísland vann Tyrkland 2:1 á Laugardalsvellinum 20. september 1989, í undankeppni HM, þar sem tvö glæsileg mörk frá Pétri Péturssyni, núverandi þjálfara kvennaliðs Vals, tryggðu sigurinn. Ári áður hafði Ísland náð jafntefli, 1:1, í útileiknum í Tyrklandi.

3 - Ísland vann Tyrkland, 5:1, í vináttulandsleik á Laugardalsvellinum 17. júlí 1991. Þar skoraði Arnór Guðjohnsen fjögur mörk, annar Íslendingurinn til að vinna það afrek með karlalandsliðinu, eftir að Sigurður Grétarsson hafði skorað fyrsta markið.

4 - Ísland og Tyrkland gerðu markalaust jafntefli á Laugardalsvellinum 10. október 1995 í undankeppni EM. Tyrkir höfðu unnið stórsigur, 5:0, í sínum heimaleik ári áður.

5 - Ísland vann Tyrkland, 3:0, á Laugardalsvellinum 9. september 2014, í fyrsta leiknum í undankeppni EM 2016. Jón Daði Böðvarsson, Gylfi Þór Sigurðsson og Kolbeinn Sigþórsson skoruðu mörkin. Seinni leikurinn í Tyrklandi tapaðist 1:0.

6 - Ísland vann Tyrkland, 2:0, á Laugardalsvellinum 9. október 2016, í undankeppni HM 2018. Theodór Elmar Bjarnason og Alfreð Finnbogason skoruðu mörkin. Ísland vann síðan seinni leikinn í Tyrklandi ári síðar, 3:0.

7. - Ísland vann Tyrkland, 2:1, á Laugardalsvellinum 11. júní 2019 í undankeppni EM 2020. Ragnar Sigurðsson skoraði bæði mörk Íslands. Seinni leikurinn í Tyrklandi endaði með markalausu jafntefli.

Tvö mörk höfðu alltaf dugað til að sigra Tyrki á Laugardalsvellinum en í kvöld var ekki nóg að Orri Steinn Óskarsson og Andri Lucas Guðjohnsen kæmu boltanum í mark Tyrkjanna, sem sigruðu 4:2.

Í heildina hafa nú Tyrkir náð að sigra Íslendinga fjórum sinnum í 15 viðureignum þjóðanna en sigurleikir Íslands eru átta og jafnteflin þrjú.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert