Åge Hareide, þjálfari íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu, hrósaði Orra Stein Óskarssyni í hástert eftir leik Íslands og Tyrklands í 4. riðli B-deildar Þjóðadeildarinnar á Laugardalsvelli í gær.
Leiknum lauk með 4:2-sigri Tyrklands en Orri Steinn kom íslenska liðinu yfir strax á 3. mínútu eftir frábæran sprett frá eigin vallarhelmingi.
„Hann hljóp yfir hálfan völlinn með mann í bakinu og þrumar boltanum svo upp í þaknetið,“ sagði Hareide þegar hann ræddi um Orra Stein á blaðamannafundi eftir leikinn í höfuðstöðvum KSÍ í gær.
„Ég elska hann! Hann verður frábær fyrir okkur í framtíðinni og hann á líka eftir að gera frábæra hluti á Spáni. Hann er á hárréttum stað þar sem hann getur haldið áfram að þróa sinn leik og verða enn þá betri,“ bætti landsliðsþjálfarinn við.