Knattspyrnudeild Fylkis hefur gengið frá ráðningu á Árna Frey Guðnasyni og verður hann nýr þjálfari meistaraflokks karla.
Árni tekur við af Rúnari Páli Sigmundssyni sem lét af störfum hjá Fylki á dögunum eftir rúm þrjú tímabil með liðið.
Undir stjórn Rúnars komst Fylkir upp í Bestu deildina, hélt sér uppi í deildinni í eitt tímabil en féll síðan á þessu tímabili.
Árni hefur náð stórgóðum árangri með ÍR undanfarin tvö ár. Hann kom liðinu upp í 1. deild á sínu fyrsta ári og fór með liðið alla leið í umspil um sæti í Bestu deildinni, þar sem liðið tapaði fyrir Keflavík í undanúrslitum.
Árni lék með Fylki árin 2012 og 2013 og skoraði fjögur mörk í 26 leikjum í deild og bikar.