Lygileg endurkoma Víkinga á Akranesi

Skagamaðurinn Johannes Björn Vall og Víkingurinn Aron Elís Þrándarson í …
Skagamaðurinn Johannes Björn Vall og Víkingurinn Aron Elís Þrándarson í baráttunni í dag. Ljósmynd/Guðmundur Bjarki

Danijel Dejan Djuric reyndist hetja Víkinga þegar liðið vann ótrúlegan endurkomusigur gegn ÍA í 26. umferð Bestu deildar karla í knattspyrnu á Akranesi í dag.

Leiknum lauk með 4:3-sigri Víkinga en Djuric skoraði sigurmarkið þegar fimm mínútur voru liðnar af uppgefnum uppbótartíma.

Víkingar eru áfram i efsta sæti deildarinnar með 56 stig, þremur stigum meira en Breiðablik sem mætir Stjörnunni á eftir, en ósigurinn þýðir að Evrópudraumur Skagamanna er úti. Skagamenn eru með 37 stig í fimmta sætinu, fjórum stigum minna en Valur sem er í þriðja sætinu.

Tvö mörk undir lok hálfleiksins

Helgi Guðjónsson fékk fyrsta færi leiksins strax á 1. mínútu þegar Erlingur Agnarsson sendi fyrir markið frá hægri en Helgi hitti ekki boltann sem endaði í höndunum á Árna Marinó Einarssyni í marki Skagamanna.

Valdimar Þór Ingimundarson fékk besta færi Víkinga í fyrri hálfleik á 24. mínútu eftir frábæra fyrirgjöf Erlings en skalli Valdimars fór í innanverða stöngina, þaðan í hina stöngina, og Skagamenn komu boltanum svo aftur fyrir endamörk.

Á 43. mínútu dró til tíðinda en Johannes Vall átti þá aukaspyrnu við D-bogann. Boltinn fór í gegnum varnarvegg Víkinga en þó beint á markið. Pálmi Rafn Arinbjörnsson réð hins vegar ekki við skotið og Skagamenn komnir yfir, 1:0.

Þremur mínútum síðar tvöfölduðu Skagamenn forystu sína þegar Vall átti laglega fyrirgjöf frá vinstri. Hinrik Harðarson stökk hæst í teignum og átti frábæran skalla í nærhornið sem Pálmi Rafn réð ekki við. Skagamenn fóru því með 2:0-forystu inn í hálfleikinn.

Ótrúlegar lokamínútur

Síðari hálfleikurinn fór fjörlega af stað því strax á 47. mínútu tókst Víkingum að minnka muninn í 2:1. Aron Elís Þrándarson lagði boltann þá snyrtilega út á Erling Agnarsson sem fékk boltann utarlega á vítateigslínunni. Hann færði boltann frá vinstri yfir á hægri og átti frábært skot með vinstri fæti sem söng í fjærhorninu.

Víkingar reyndu hvað þeir gátu að jafna metin og leikurinn fór svo gott sem fram á vallarhelmingi Skagamanna í síðari hálfleik.

Þung pressa Víkinga bar loks árangur á 75. mínútu þegar boltinn barst til Arons Elís rétt utan teigs. Hann sendi boltann í gegnum vörn ÍA, beint í fæturna á Erlingi Agnarssyni sem vippaði boltanum yfir Árna Marinó sem kom út á móti honum. Nikolaj Hansen var svo mættur á marklínuna til þess að ýta boltanum í markið og staðan orðin 2:2.

Það virtist allt stefna í jafntefli þegar Ingi Þór Sigurðsson vann boltann af Tarik Ibrahimagic úti hægra meginn. Ingi keyrði upp að endamörkum, lagði boltann fyrir markið á Viktor Jónsson sem stýrði boltanum í netið úr miðjum teignum og Skagamenn aftur komnir yfir.

Aðeins mínútu síðar fékk Erlingur boltann úti vinstra megin. Hann lagði boltann fyrir sig og þrumaði honum með vinstri fæti, upp í samskeytin vinstra megin, og staðan aftur orðin jöfn, 3:3.

Það var svo Danijel Dejan Djuric sem skoraði sigurmark leiksins með skalla þegar fimm mínútur voru liðnar af uppgefnum uppbótartíma. Óskar Örn Hauksson átti þá frábæra fyrirgjöf frá hægri, beint á kollinn á Djuric sem skallaði boltann í stöngina og inn og lokatölur því 4:3 á Akranesi.

Lýsing uppfærist sjálfkrafa

Allar lýsingar í beinni

Aðrir virkir leikir

KA 2:1 Vestri opna
90. mín. Gunnar Jónas Hauksson (Vestri) fær rautt spjald Hallgrímur Mar reynir að setja boltann innfyrir vörnina í hlaupið hjá Ásgeiri en Gunnar setur hendina fyrir sendinguna og Pétur rekur hann útaf.
FH 1:1 Valur opna
90. mín. Kristinn Freyr Sigurðsson (Valur) fær gult spjald +6. Æsti sig útaf brotinu.
Man. United 2:1 Brentford opna
90. mín. Leik lokið Ansi kærkomið fyrir Erik ten Hag og lærisveina hans.
Bournemouth 0:0 Arsenal opna
Engir atburðir skráðir enn
Breiðablik 0:0 Stjarnan opna
Engir atburðir skráðir enn

Leiklýsing

ÍA 3:4 Víkingur R. opna loka
90. mín. Erlingur Agnarsson (Víkingur R.) á skot yfir Boltinn dettur fyrir Erling, rétt utan teigs, en skotið yfir markið!
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert