Opnaði sig um brottreksturinn á Hlíðarenda

Hermann Hreiðarsson og Arnar Grétarsson.
Hermann Hreiðarsson og Arnar Grétarsson. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

„Stundum er það bara þannig í fótbolta að menn fá ekki tíma,“ sagði knattspyrnuþjálfarinn Arnar Grétarsson í Fyrsta sætinu.

Arnari var sagt upp störfum sem þjálfara Vals í Bestu deild karla byrjun ágústmánaðar en hann hefur einnig stýrt Breiðabliki, Roeselare í Belgíu og KA á þjálfaraferlinum. Þá lék hann 71 A-landsleik fyrir Ísland og var atvinnumaður Grikklandi og Belgíu í tæpan áratug. 

Traust og vellíðan

Arnari var sagt upp störfum hjá Val í ágúst eftir tæplega tvö ár í starfi.

„Hjá Víkingi eru tveir aðilar sem tjá sig um fótbolta, það eru Arnar Gunnlaugsson og Kári Árnason,“ sagði Arnar.

„Hjá FH eru það þjálfarinn og Davíð Þór Viðarsson. Með fullri virðingu fyrir þeim sem hafa starfað lengi í kringum fótbolta og aflað sér þekkingar þá er það ekki það sama og þegar þú hefur spilað leikinn á hæsta getustigi.

Traust og vellíðan er mjög mikilvæg í fótbolta og þá er miklu líklegra að þú náir því besta út úr fólki. Um leið og fólk fer að finna fyrir óöryggi og pressu þá eru minni líkur á því að það geti staðið sig. Þegar einhver segir við þig að þú verður að vinna, þá fylgir því aukapressa, og með því er verið að byggja upp óþarfa pressu,“ sagði Arnar meðal annars.

Eiga að vinna 

En fann Arnar fyrir mikilli pressu frá stjórnarmönnum á Hlíðarenda?

„Það er ákveðið andrúmsloft, sem ég fann vel þessi tvö ár. Hugsunarhátturinn er kannski sá að menn séu að gera rosalega mikið og það sé verið að gera mikið fyrir leikmennina og þá eigum við bara að vinna alla leiki. Við erum að fara spila við eitthvað lið í neðri hlutanum og við eigum að vinna, 4:0 eða 5:0. Fótbolti er alls ekki þannig.

Í körfubolta þá held ég að ef þú ert með mun betra lið þá eru 99% líkur á því að þú vinnir leikinn en þannig er það ekki í fótbolta. Það eru svo margar breytur í fótbolta. Þú getur pakkað í vörn, átt tvær góðar skyndisóknir, allt gengur upp og þú vinnur leikinn. Þetta er erfitt í öðrum íþróttagreinum en þetta er hægt í fótbolta,“ sagði Arnar meðal annars.

Hægt er að hlusta á umræðuna í heild sinni í spil­ar­an­um hér fyr­ir ofan eða með því að smella hér. Þátt­ur­inn er einnig aðgengi­leg­ur á öll­um helstu hlaðvarps­veit­um.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert