Eigum harma að hefna

Theódór Elmar Bjarnason.
Theódór Elmar Bjarnason. Ljósmynd/Kristinn Steinn

Fyrirliði KR, Theodór Elmar Bjarnason, var mjög sáttur með útisigur gegn Fylki í Árbænum í kvöld, 0:1. Hann hrósaði Fylkismönnum eftir að þeir höfðu lent manni undir í fyrri hálfleik.

„Við byrjuðum gífurlegar sprækir og líklegir og svo kemur þetta rauða spjald og við það deyr leikurinn. Fylkismenn fara niður í skotgrafirnar og voru mjög flottir og líka öflugir í skyndisóknum. Mér fannst þeir eiga einn sinn besta leik varnarlega séð en við hefðum getað nýtt stöðurnar okkar töluvert betur.“

Leikurinn var ekki mikið fyrir augað og sérstaklega í síðari hálfleik enda var fátt um alvöru færi.

„Þetta var líklega hundleiðinlegur leikur til að horfa á, sérstaklega eftir rauða spjaldið,“ sagði Elmar og glotti.

Hvernig ætlaði liðið að koma inní síðari hálfleik þegar liðið var að fara að spila 11 á móti 10 í 45 mínútur í viðbót?

„Það var bara áfram gakk, halda tempóinu uppi og spila hratt, reyna að finna glufur á þessari lágu vörn sem þeir voru með. Við gerðum það vissulega en við vorum ekki að nýta stöðurnar nógu vel. En við erum ánægðir með stigin þrjú og héldum hreinu.“

KR á HK í síðasta leik, sem er heimaleikur sem verður líklega spilaður á gervigrasvelli Þróttara í Laugardal. KR-ingar hafa ekki riðið feitum hesti gegn þeim rauð hvítu úr Kópavogi og síðasti heimasigur liðsins gegn HK kom árið 2019 þegar KR var Íslandsmeistari. Hvernig horfir sá leikur við Elmari?

„Það búið að ganga mjög brösuglega með HK í undanförnum leikjum á undanförnum leiktíðum. Við eigum svo sannarlega harma að hefna og við erum að keppa fyrir okkur sjálfa, fyrir stoltið og fyrir fólkið sem borgar sig inná leikina okkar.“

„Mér finnst umræðan galin um að lið hafa ekki um neitt að keppa. Þú mætir í leik til að vinna, alveg sama hvað er undir. Það sást bara á Fylkismönnum, þeir eru fallnir en mæta eins og ljón inná vellinum og fara í allar tæklingar af fullum krafti. Þetta er alvöru metnaður.“

„Ég þoli ekki að það sé verið að réttlæta það að menn sem fá borgað fyrir að spila fótbolta mæti ekki í kappleiki til að vinna þá og bera þá ekki virðingu fyrir fólki sem borgar sig inná leiki. Leikmenn geta ekki hugsað að þeir hafa engu að keppa og kasta bara inn handklæðinu, það er bara kjaftæði og bara afsökun þegar illa gengur.“

„Við í KR mætum dýrvitlausir í næsta leik og ætlum að vinna HK og taka þessa fjóra sigra með okkur inní næstu leiktíð.“ sagði vígreifur Theodór Elmar Bjarnason að lokum í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert