Magnað að gera þetta annan leikinn í röð

Atli Þór Jónasson framherji HK með Alex Frey Elísson og …
Atli Þór Jónasson framherji HK með Alex Frey Elísson og Kennie Chopart fyrir aftan sig í leiknum í kvöld. mbl.is/Ólafur Árdal

„Sigur var það eina sem við ætluðum okkur," sagði Ómar Ingi Guðmundsson þjálfari HK við mbl.is eftir að Kópavogsliðið lagði Fram að velli á dramatískan hátt, 2:1, í Bestu deild karla í fótbolta í Kórnum í Kópavogi í kvöld.

Þorsteinn Aron Antonsson skoraði sigurmarkið í lok uppbótartímans og HK og Vestri eru þar með jöfn að stigum fyrir lokaumferðina en annað þeirra fellur niður í 1. deildina með Fylki.

HK á þar útileik á móti KR á meðan Vestri á heimaleik gegn Fylki og Vestra nægir að ná sömu úrslitum og HK vegna betri markatölu.

„Við ræddum það í pásunni fram að þessum leik að við þyrftum að vinna hérna, alveg sama þó einhver tölfræðilegur möguleiki hefði verið á hinu og þessu með jafntefli," sagði Ómar Ingi.

„Þetta var síðasti heimaleikurinn á tímabilinu, gegn liði sem við vorum búnir að vinna tvisvar og uppleggið var allan tímann að sækja til sigurs. Við gáfum okkur færi á því með breytingum og hugarfari. Við hentum Kris (markverði) fram í horni á lokamínútunum, í stöðunni 1:1. Við ætluðum okkur sigur og það er ótrúlega ánægjulegt að það skyldi takast.

Það er líka magnað að við skulum tryggja okkur dýrmæt stig með nánast síðustu spyrnu leiksins annan leikinn í röð.“

Svo er Þorsteinn Aron búinn að skora þrjú sigurmörk á móti Fram á þessu tímabili!

„Já, einmitt. Hann er illviðráðanlegur í teignum og skapar sér fullt af hættulegum færum. Það er alltaf hætta þegar boltinn kemur fyrir markið eftir horn, innköst eða aukaspyrnur.

Það er skemmtileg staðreynd að þetta skuli einmitt alltaf hafa gerst á móti Fram en hann hefur verið mjög líklegur til að skora í mörgum öðrum leikjum, sem er frábært. Hann er naskur á að koma sér í boltann þegar hann kemur inn í teiginn.“

Nú er KR-leikurinn eftir og þar þurfið þið líka að spila til sigurs, ekki rétt?

„Já, við verðum bara að ætla okkur að vinna, eins og við gerðum í kvöld. Við vildum búa okkur til það augnablik og þá stöðu að liðin væru jöfn að stigum fyrir lokaumferðina, þannig að það yrði allt undir í báðum leikjunum.

Svo verður bara að koma í ljós hvað gerist, en eins og ég hef sagt, þá er synd, og okkur að kenna, að við skulum ekki vera með þetta í okkar höndum fyrir síðustu umferðina.

En við verðum að gera allt sem við getum í vikunni, og svo í leiknum á laugardaginn, til þess að gefa okkur eins góða möguleika og hægt er," sagði Ómar Ingi Guðmundsson.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert