HK á enn möguleika á að halda sæti sínu í Bestu deild karla í fótbolta eftir dramatískan sigur gegn Fram, 2:1, í Kórnum í Kópavogi í kvöld.
Þorsteinn Aron Antonsson skoraði sigurmark HK á síðustu mínútu í uppbótartíma og hefur þar með skorað sigurmörk HK í öllum þremur leikjunum gegn Fram á þessu tímabili.
Til þess að halda sæti sínu í deildinni þarf HK jafntefli eða sigur gegn KR á Meistaravöllum í lokaumferðinni og treysta á að Vestri tapi eða geri jafntefli gegn Fylki á Ísafirði.
Vestri og HK eru bæði með 25 stig en markatala Vestramanna er 13 mörkum betri þannig að þeim dugar alltaf að gera það sama og HK í síðasta leiknum.
Atli Þór Jónasson fékk fyrsta opna færi leiksins fyrir HK á 15. mínútu þegar hann skaut yfir af markteig eftir fyrirgjöf Birnis Breka Burknasonar frá hægri.
Framarar komust yfir á 20. mínútu. Fred Saraiva komst að endamörkum vinstra megin og sendi þvert fyrir markið. Alex Freyr Elísson kom á ferðinni hægra megin í teignum og skoraði með viðstöðulausu skoti, 0:1.
HK-ingar voru fljótir að jafna því á 22. mínútu átti Ívar Örn Jónsson góða fyrirgjöf frá vinstri kantinum, Birnir Breki stakk sér fram og skoraði með skalla af markteig, 1:1.
HK fékk tvö góð færi til að ná forystunni í fyrri hálfleik. Ólafur Íshólm í marki Fram varði glæsilega skalla frá Eiði Gauta Sæbjörnssyni úr dauðafæri á markteig og Atli Þór Jónasson fékk óvænt og galopið færi á markteig eftir mistök í vörn Fram en fór illa að ráði sínu og skaut langt fram hjá markinu.
Staðan var því 1:1 í hálfleik.
Framarar komust í hættulegt færi í snöggri sókn á 55. mínútu þegar Alex Freyr skaut hægra megin úr vítateignum rétt fram hjá stönginni fjær.
Þeir bláklæddu fengu síðan sannkallað dauðafæri á 61. mínútu eftir flott spil en Christoffer Petersen í marki HK varði vel með fótunum frá Djenaro Daniels sem var nýkominn inn á sem varamaður.
Ólafur Íshólm bjargaði síðan Fram á ný með frábærri markvörslu á 73. mínútu þegar hann varði skalla Atla Hrafns Andrasonar af stuttu færi.
Framarar voru tvisvar nærri því að skora á 86. mínútu. Christoffer Petersen varði skalla Adams Arnar Arnarsonar í horn og upp úr horninu átti Guðmundur Magnússon skalla sem HK-ingar björguðu nánast á marklínu.
Í uppbótartímanum varð talsverður hasar þegar HK skilaði ekki boltanum í kjölfar þess að Ólafur markvörður Fram sparkaði honum út af eftir að Guðmundur Magnússon samherji hans lagðist á völlinn. HK tók innkastið nálægt hornfána Framara sem voru afar óhressir með að fá ekki boltann til baka.
En í blálokin var það Þorsteinn Aron Antonsson sem tryggði HK sigurinn dýrmæta eftir aukaspyrnu frá Christoffer Petersen markverði og skalla Eiðs Gauta Sæbjörnssonar, 2:1.