Gífurlegt áfall fyrir Fylkismanninn

Sigurbergur Áki Jörundsson í leik með Fylki í sumar.
Sigurbergur Áki Jörundsson í leik með Fylki í sumar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Sigurbergur Áki Jörundsson, leikmaður Fylkis í knattspyrnu, varð fyrir því óláni að slíta krossband í hné í leik liðsins gegn KR í næstsíðustu umferð Bestu deildarinnar á sunnudagskvöld.

Fótbolti.net greinir frá og hefur eftir Sigurbergi Áka að fyrsta mál á dagskrá sé að finna tíma í skurðaðgerð vegna meiðslanna.

Hann má eiga von á því að vera frá keppni næstu níu mánuði en dæmi eru um að leikmenn séu lengur frá, til dæmis sneri brasilíska stórstjarnan Neymar nýverið aftur á völlinn eftir rétt rúmt ár eftir að hann sleit krossband á síðasta ári.

Verði Sigurbergur Áki frá í níu mánuði myndi hann snúa aftur í júlí á næsta ári.

Sigurbergur er tvítugur miðvörður og varnartengiliður sem gekk til liðs við Fylki fyrir yfirstandandi tímabil. Fylkir er fallið úr Bestu deildinni og leikur því í 1. deild á því næsta.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert