Þorlákur Árnason hefur verið ráðinn þjálfari karlaliðs ÍBV í knattspyrnu og stýrir því í Bestu deildinni á næsta tímabili. Samningur hans við Eyjamenn er til þriggja ára.
Hann tekur við af Hermanni Hreiðarssyni sem hefur þjálfað Eyjamenn undanfarin þrjú tímabil og skilaði þeim aftur upp í Bestu deildina í haust eftir eins árs fjarveru þaðan en ÍBV stóð uppi sem sigurvegari í 1. deildinni eftir tvísýna baráttu.
Þorlákur, sem er 55 ára gamall, kemur til Eyja frá Portúgal þar sem hann þjálfaði kvennalið Damaiense í eitt ár, frá október 2023 og þar til fyrr í þessum mánuði þegar hann sagði starfi sínu lausu.
Hann hóf þjálfaraferilinn fyrir 28 árum. Stýrði fyrst Ægi í Þorlákshöfn árið 1996 og tók síðan við karlaliði Vals á miðju tímabili 1997.
Hann tók svo á ný við Valsmönnum árið 2002 og var með þá í tvö ár og síðan með Fylki í tvö ár.
Þorlákur var þjálfari stúlknalandsliðs Íslands á árunum 2009 til 2012 og drengjalandsliðsins frá 2013-14 og aftur 2017-18. Jafnframt tók hann við kvennaliði Stjörnunnar fyrir tímabilið 2011 og þjálfaði það í þrjú ár með frábærum árangri en Stjarnan varð Íslandsmeistari 2011 og 2013 og bikarmeistari 2012 undir hans stjórn.
Þorlákur stýrði um skeið einni öflugustu unglingaakademíu í Svíþjóð, hjá Brommapojkarna, og var síðan yfirmaður knattspyrnumála hjá Hong Kong í tvö ár, 2019 til 2021, en kom síðan aftur til Íslands og þjálfaði karlalið Þórs í 1. deildinni 2022 og 2023. Þá um haustið tók hann við liði Damaiense.