Tíu í banni í lokaumferðinni

Jón Þór Hauksson var úrskurðaður í tveggja leikja bann.
Jón Þór Hauksson var úrskurðaður í tveggja leikja bann. Ljósmynd/Kristinn Steinn

Átta leikmenn og tveir þjálfarar í Bestu deild karla í knattspyrnu voru á fundi aga- og úrskurðarnefndar KSÍ í dag úrskurðaðir í leikbann og taka því engan þátt þegar lokaumferð deildarinnar fer fram um næstu helgi.

Jón Þór Hauksson, þjálfari ÍA, var úrskurðaður í tveggja leikja bann eftir að hann fékk sína aðra brottvísun í sumar í 3:4-tapi ÍA gegn Víkingi úr Reykjavík um síðustu helgi. Einnig var ÍA sektað um 20.000 krónur vegna brottvísunarinnar.

Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkings, fékk sína fjórðu áminningu í sumar í sama leik og verður því ekki á hliðarlínunni þegar liðið fær Breiðablik í heimsókn í hreinum úrslitaleik um Íslandsmeistaratitilinn á sunnudagskvöld.

Arnór Breki Ásþórsson, Birkir Eyþórsson og Nikulás Val Gunnarsson hjá Fylki voru allir úrskurðaðir í eins leiks bann og verða því ekki með í lokaumferðinni þegar Árbæingar heimsækja Vestra á Ísafjörð á laugardag. Fylkir var þá sektað um 4.000 krónur vegna sjö refsistiga.

Gunnar Jónas Hauksson hjá Vestra fékk sömuleiðis eins leiks bann og missir af þeim leik.

Bjarni Mark Duffield og Kristinn Freyr Sigurðsson eru einnig komnir í eins leiks bann og missa því af leik liðsins gegn ÍA á Hlíðarenda á laugardag.

Böðvar Böðvarsson hjá FH og Haraldur Einar Ásgrímsson hjá Fram taka sömuleiðis út leikbann í leikjum liða sinna á laugardag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert