Glódís Perla Viggósdóttir, fyrirliði íslenska landsliðsins í knattspyrnu og stórliðs Bayern München, er spennt fyrir komandi vináttuleikjum gegn ólympíumeisturum Bandaríkjanna.
Liðin mætast í Texas annað kvöld og svo á sunnudaginn í Tennessee.
„Þetta er auðvitað risastórt verkefni fyrir okkur og gaman að fá að prófa okkur gegn þeim allra bestu. Þær koma inn í þennan leik sem besta lið í heimi akkúrat núna.
Það er verðugt verkefni fyrir okkur að sjá hvernig við getum leyst það. Þá getum við séð hvað við þurfum að bæta til þess að við getum komist á sama stað og þær,“ sagði Glódís Perla í samtali við KSÍ TV.
Hún sagði það góðs viti að fá að máta sig við þetta sterkt lið.
„Þetta eru leikirnir sem við getum lært mest af sem lið. Það er gaman að sjá hvar við stöndum miðað við bestu lið í heimi. Við höfum verið að fá flotta leiki undanfarið, bæði í Þjóðadeildinni og svo núna líka.
Auðvitað förum við inn í alla leiki til þess að vinna þá en það er rosa gaman að spila á móti þessum stóru, sterku þjóðum, að fá aðeins að atast í þeim.“
Ísland tryggði sér sæti á EM 2025 í Sviss í sumar. Glódís Perla sagði hug leikmanna ekki kominn þangað.
„Við erum auðvitað bara í einu verkefni í einu. Það er mikið sem þarf að gerast áður en við förum á EM. Við eigum gríðarlega mikilvæga Þjóðadeild sem spilast eftir áramót, fyrir EM, þar sem við þurfum að fá góð úrslit. Það skiptir máli upp á næstu undankeppni.
Við verðum að fara í hvert verkefni fyrir sig og reyna að nýta það sem best, halda áfram að bæta okkur og verða betri í hverju einasta verkefni. Þannig held ég að við undirbúum okkur sem best fyrir EM.“