Sennilega besta lið í heimi

Þorsteinn Halldórsson.
Þorsteinn Halldórsson. Ljósmynd/Alex Nicodim

„Þetta er hörkuandstæðingur og frábært lið, sennilega besta lið í heimi þannig að við fáum erfiða leiki í þessu verkefni,“ sagði Þorsteinn Halldórsson, þjálfari íslenska kvennalandsliðsins í knattspyrnu, um tvo vináttuleiki sem liðið á fyrir höndum gegn Bandaríkjunum.

„Það er spennandi að takast á við það og verður mjög krefjandi fyrir okkur. Þessir leikir hjálpa okkur að bæta okkur sem lið og að þurfa að takast á við krefjandi aðstæður.

Að allir leikir séu krefjandi fyrir okkur hjálpar okkur við að verða betri. Að við séum alltaf þannig að við þurfum að takast á við hluti sem eru erfiðir og andstæðingurinn er góður.

Að við þurfum alltaf að vera að spila okkar besta leik, spila góða leiki til að ná í góð úrslit. Spilamennskan þarf að vera góð á morgun til þess að við náum í góð úrslit,“ sagði Þorsteinn í samtali við KSÍ TV í Texas í dag.

Fanney Inga ekki með

Hann sagði vináttuleikina tvo gegn Bandaríkjunum lið í því að halda áfram að þróast sem lið.

„Þetta verkefni er náttúrlega til þess að þróa liðið áfram. Þjóðadeildin kemur náttúrlega á undan EM og er mikilvæg þannig að við höldum bara áfram að þróa okkur og verða betri. Það er markmiðið með þessu verkefni, að gefa leikmönnum tækifæri og verða betri.“

Spurður út í stöðuna á leikmannahópnum sagði Þorsteinn:

„Fanney [Inga Birkisdóttir] verður ekki með á morgun. Hún fékk eitthvað smá höfuðhögg í gær og verður ekki klár. Að öðru leyti eru allar klárar.“

Hann sagðist þá munu nota leikina tvo til þess að skoða sem flesta leikmenn.

„Ég mun rótera töluvert mikið. Það verða töluverðar breytingar á milli leikja og þeir leikmenn sem hafa kannski spilað minna munu fá fleiri mínútur,“ sagði Þorsteinn að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert